Tekist á um rekstur Fjarðabyggðar

Frambjóðendur til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar voru ekki sammála um hvernig lesa ætti úr ársreikningi sveitarfélagsins á framboðsfundi á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi. Heimamenn spurðu út í rekstur hjúkrunarheimilisins Uppsala.

Kveikjan að umræðunni var gagnrýni Rúnars Gunnarssonar, oddvita Miðflokksins á rekstur bæjarins undanfarin ár. Hann sagði það alvarlegt mál að núverandi meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stærði sig af því að hafa lækkað skuldir sveitarfélagsins þegar í raun hefði aðeins skuldahlutfallið lækkað út af auknum tekjum.

Hann sagði einnig starfsmenn sveitarfélagsins of marga samanborið við önnur sveitarfélög sem væru betur rekin. Hann gagnrýndi einnig aukinn launakostnað sem hann sagði hafa hækkað um 27% milli ára. „Skyldu þeir hafa hækkað launin hjá öllu fólkinu um 27%, í yfirstjórninni eða á skrifstofunni – eða fjölgaði starfsfólki svona mikið?“

Frambjóðendur flokksins hétu því að rýna rekstur sveitarfélagsins með það að markmiði að lækka álögur á íbúa.

Óraunhæfur samanburður

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, sagði ekki tækt hjá Rúnari að steypa saman vaxtaberandi skuldum við lánastofnanir annars vegar og lífeyrisskuldbindingum hins vegar. Aukin laun skýrðust að miklu leyti af samkomulagi um uppgjör sem sveitarfélög gerðu við lífeyrissjóðinn Brú. Eins hefðu hjúkrunarheimilin Hulduhlíð og Uppsalir verið tekin inn í samstæðureikninginn að kröfu endurskoðenda.

Hann sagði rangt að bera Fjarðabyggð, með sex hverfi, saman við sveitarfélög eins og Garðabæ eða Vestmanneyjar sem væru rekin á fjórum ferkílómetrum. „Það kostar ef við ætlum að halda uppi skólastarfi. Við rýnum reksturinn reglulega. Hann er ekki hafinn yfir gagnrýni en rétt skal vera rétt.“

Hvar á að segja upp 100 starfsmönnum?

„Það er vinsælt á svona fundum að tína til skrifstofuna,“ sagði Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Laun starfsmanna á skrifstofum hefðu verið lækkað árið 2010 og sviðsstjórum fækkað um helming.

Jens var einnig gagnrýninn á fullyrðingar Rúnars um að of hátt væri að vera með 1 starfsmann sveitarfélags á móti hverjum 14 íbúum samanborið við 1 á móti hverjum 25 eins og í Garðabæ.

„Það eru 350 stöðugildi í Fjarðabyggð, að fara niður í 250 eins og þetta hlutfall gerir ráð fyrir, þarf að segja upp 100 starfsmönnum. Hvar á að segja þeim upp, þetta eru mest starfsmenn skóla og áhaldahúsa. Eigum við að reka skrifstofuna og loka einum skóla í viðbót. Þetta eru blammeringar og fullyrðingar sem settar eru fram út í loftið og eiga ekki við nein rök að styðjast.

Það er hins vegar ánægjulegt að oddviti Miðflokksins miði við sveitarfélög sem rekin hafa verið í áratugi af Sjálfstæðisflokknum. Þá vita fundarmenn hverjir eru bestir í að reka sveitarfélög.“

Jens sagði forgangsmál að halda áfram að lækka skuldir. Þær hefðu lækkað um fjóra milljarða síðan núverandi meirihluti tók við árið 2010. Enn væru hins vegar verið að borga milljarð í vexti á hverju ári sem væru „blóðpeningar.“

Rúnar sakaði Jens um að snúa út úr með að leita aftur til ársins 2010 til að finna samanburðinn. Enn fremur sakaði hann oddvita meirihlutaflokkanna um útúrsnúninga með að vísa til lífeyrissjóðsskuldbindinga sem hluta launakostnaðar, þær skýringar væru hvergi að finna í ársreikningi. Launahækkunin væri eingöngu vegna fjölgunar starfsmanna.

Hvað stendur í ársreikningnum?

Skjót yfirferð yfir ársreikninga Fjarðabyggðar gefur hins vegar til kynna að fullyrðingar Rúnars séu hæpnar. Bæði í áritun bæjarstjóra og bæjarstjórnar, fremst í ársreikningum fyrir síðasta ár og í skýringum, er skýrt frá samkomulaginu við lífeyrissjóðinn Brú og áhrif hjúkrunarheimilanna á reikning samstæðunnar. Frá inntöku hjúkrunarheimilanna var enn fremur greint í fréttum í vor. Að auki er gerð grein fyrir áhrifum fyrrgreindra breytinga í greinargerð bæjarstjóra með ársreikningnum og fundargerðum.

Rúnar fullyrti að launakostnaður sveitarfélagsins hefði hækkað um 27%. Samkvæmt ásreikningi hækkuðu laun A og B hluta um 21% milli áranna 2016 og 2017. Launahækkun í A-hlutanum er 7%. Hjúkrunarheimilin tilheyra A-hlutanum og í launalið ársreiknings eru lífeyrisskuldbindingarnar skilmerkilega færðar, tæpar 130 milljónir. Hjá Fjarðabyggð fjölgaði um 16 stöðugildi, eða 19 ársverk á síðasta ári. Laun og launatengd gjöld bæjarstjórnar og bæjarstjóra fóru úr 53,6 í 61,8 milljón sem er hækkun upp á 15%.

Árangur í niðurgreiðslu skulda á kjörtímabilinu er hins vegar umdeilanlegri. Heildarskuldir Fjarðabyggða og undirstofnana í lok árs 2017 voru 8,9 milljarðar króna en 9,3 milljarðar í lok árs 2014, eða hrein lækkun upp á 400 milljónir.

Langtímaskuldir við lánastofnanir námu 5,1 milljarði í lok síðasta árs en voru 5,4 milljónir í lok árs 2014. Skuldir A-hluta hafa lækkað úr 3,7 milljörðum í 3,2 á tímabilinu. Í B-hlutanum hafa skuldir aukist á veitustofnanir og vegna tilkomu hjúkrunarheimilanna en lækkað á hafnarsjóði.

Lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins hafa hins vegar aukist úr því að vera 1,9 milljarður 2014 í 2,3 milljarða í lok árs 2017. 

Áhyggjur af stöðu Uppsala

Fundargestir á Fáskrúðsfirði spurðu hins vegar nær eingöngu út í hjúkrunarheimilið Uppsali og hvers vegna aðalsjóður Fjarðabyggðar hefði þurft að lána því nýverið 30 milljónir króna vegna rekstrarvanda. Þeir lýstu efasemdum um að sameining stjórnunar Uppsala og Hulduhlíðar fyrir tveimur árum hefði verið til góðs.

Jón Björn, svaraði því til að Uppsalir hefðu orðið illa úti þegar ríkið hefði breytt greiðslufyrirkomulagi sínu til hjúkrunarheimilanna. Þar hafi verið dvalarrými sem ekki séu til staðar lengur. Því sé barist fyrir að fjölga þar hjúkrunarrýmum.

Þá væru daggjöld frá ríkinu, sem ætluð eru til rekstrar hjúkrunarheimilanna, naumt skömmtuð og það vandamál einskorðist ekki við Fjarðabyggð. Við bætist að reglan sé sú að ef vistmaður á heimilinu dvelur þar ekki yfir nótt falla greiðslurnar niður. Við fráfall heimilisfólks taki standi oft rými auð á meðan verið sé að skipta, þá fáist engar greiðslur en á sama tíma sé ekki hægt að lækka rekstrarkostnaðinn með að fækka starfsfólki.

Eins hafi nýtt hjúkrunarheimili á Egilsstöðum haft áhrif en áður hafi Héraðsmenn oft farið til dvalar á Fáskrúðsfirði. Í ár hafi nýting rýma á Uppsölum aðeins verið 80%. Þessi þrönga rekstrarstaða leiði síðan til þess að heimilin megi ekki við neinum áföllum í rekstri, til dæmis langtímaveikindum.

Barist hafi verið við ríkið um að fá þessa meðgjöf leiðrétta en þar verið lítill skilningur á. Fleiri frambjóðendur tóku undir þessa skekkju milli ríkis og sveitarfélaga.

Molnar undan samfélaginu ef ekki er hugsað um fólkið

Sigurður Ólafsson, annar maður á lista Fjarðalistans, gerði geðheilbrigðismál að umtalsefni í framsöguræðu sinni. Hann benti á að 13% Íslendinga notaði kvíða- og þunglyndislyf en 14% Austfirðinga. Það hlutfall væri 20% meðal kvenna á svæðinu.

„Það molnar undan samfélaginu ef við hugum ekki að fólki. Þessar tölur benda til að við eigum við vandamál að etja sem er grafalvarlegt og raunveruleg ógn við framtíð okkar.“

Flest framboðin hafa á einn hátt eða annan kallað eftir auknum stuðningi við geðheilbrigðismál, einkum eflingu stoðstofnana við skóla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.