
Tekið jákvætt í að loka Regnbogagötunni á Seyðisfirði fyrir bílaumferð
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings tekur jákvætt í erindi þess efnis að loka Norðurgötunni, gjarnan þekkt sem Regnbogagatan, fyrir allri bílaumferð í sumar og hún verði því göngugata að sumarlagi.
Erindi um slíkt barst heimastjórn Seyðisfjarðar nýverið frá forsvarsaðilum handverksmarkaðarins við Norðurgötu 6 og leist heimastjórnarfólki vel á. Var erindið áframsent til umsagnar hjá þartilbærum aðilum í sveitarfélaginu. Óskað var eftir lokun götunar að sumarlagi en fyrir slíku eru fjölmörg fordæmi í vinsælum götum bæja og borga í landinu.
Samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð fyrir sitt leyti að láta gera tilraun með lokun fyrir allri bílaumferð frá 15. júní til 1. september en með þeim fyrirvara þó að endanleg afstaða verði ekki tekin fyrr en haft hefur verið samband við húseigendur við götuna og þeim kynnt þessi áform. Jafnframt verði aðgengi hreyfihamlaðra, viðbragðsaðila og vöruflutningaraðila tryggt meðan á lokuninni stendur ef af verður.
Líklega eru fáar götur jafn þekktar á Austurlandi og „Regnbogagatan“ á Seyðisfirði og nú er útlit fyrir að sú verði göngugata í sumar.