Þarf meira en hliðhollan ráðherra hverju sinni

„Það verður bara að fá það á hreint hvort Íslendingar vilja yfir höfuð að stundaður sé landbúnaður á Íslandi, við þær aðstæður sem við búum við hér á hjara veraldar,” sagði Halla Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi á Héraði í þættinum Að austan á N4 í síðustu viku.



Halla segir að þrátt fyrir erfitt landslag landbúnaði telji hún ýmislegt benda til þess að ástandið sé að vænkast og bændur á Austurlandi séu síður en svo tilbúnir að leggja upp laupana, enda sé svæðið kjörið til sauðfjárræktunar.

„Sauðfjárrækt er ekkert annað en matvælaframleiðsla og ef þú ert með rekstur á búi sem ekki er mikið á lánum er hægt að framfleyta sér í einhvern tíma.
Það er þó einn þáttur sem fæst aldrei fram, það er hver hlutur verslunarinnar er í heildarafurðaverðinu, en það er eitthvað sem við bændur viljum fá á hreint. Þegar neytendur fara í búð og kaupa vöru, hvernig er hún samsett. Menn liggja ekkert á því að bændur fá einhvern hlut, afurðastöðvar fá sinn hlut en þá vantar þann þriðja,” segir Halla.

Bændur koma ekki sjónarmiðum sínum í fjölmiðla
Halla segir ákveðna kosti vera við að stunda landbúnað hérlendis, en meira þurfi þó til. „Við erum með hreint vatn og getum búið til góðar og heilnæmar afurðir. En það þarf miklu meira en tilfallandi ráðherra hverju sinni sem er greininni hliðhollur. Stétt eins og sauðfjárbændur stendur ekki af sér þegar fjölmiðlar og samfélagsmiðlar segja okkur að við séum ekki til neins og óþarft fólk. Það er svo einfalt í dag að segja fólki hvað er best og það er keyrt í fjölmiðlum. Það verður að segjast að bændur hafa ekki átt auðvelt með að koma sínum sjónarmiðum þar inn og þá er ég ekki að tala umeitthvað væl, bara staðreyndir. Til dæmis, þegar þú ferð út í búð og kaupir lambalæri þá er það eins og herðatré, á það vantar alla fyllingu. Bændur eru búnir að stunda ræktun á kjöti í mörg ár og vita nákvæmlega hvernig þetta á að vera og um hvað á að biðja. Það veit neytandinn ekki, hann veit ekki hvað gott kjöt. Það er þarna sem við eigum svo langt í land, við komumst ekki inn á markaðinn og í verslanir. Það er skilgreint alveg fram yfir ferlið í sláturhúsinu hvernig lambið er samsett þannig að það ætti að vera hægt að kaupa mjög góða kjötvöru. Neytandinn hefur hins vegar ekki aðgang að því og kaupir bara gúllasið í borðinu,” segir Halla.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.