Talið að um tvö tonn af lýsi hafi endað í höfninni

Talið er að um tvö tonn af lýsi hafi farið í höfnina á Fáskrúðsfirði í mengunaróhappi fyrir tæpum tveimur vikum. Umhverfisstofnun fór fram á að fjaran yrði vöktuð en best sé að láta náttúruna brjóta niður efnið.

Óhappið varð með þeim hætti að ekki var skrúfað nógu vel fyrir krana í verksmiðju Loðnuvinnslunnar með þeim afleiðingum að um tvö tonn af lýsi fóru í sjóinn. Atvikið varð laugardaginn 30. júní og fór fulltrúi frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands strax á staðinn en atburðurinn var tilkynntur til Umhverfisstofnunar á mánudag.

Ekki kom fyrr í ljós að lýsið hafði borist inn fjörðinn og í smábátahöfnina. Starfsmenn Loðnuvinnslunnar fóru þá í að minnka skaðann og koma í veg fyrir að fleiri fuglar færu í mengunina.

Tveir starfsmenn Umhverfisstofnunar, úr eftirlitsteymi og bráðamengunarteymi, fóru austur á miðvikudegi til að fara yfir málið, skoða aðstæður og meta hvort frekari aðgerða væri þörf.

Sigríður Kristinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að þá hafi verið ráðlagt að smábátahöfnin yrði hreinsuð betur með efni sem ekki væri skaðlegt umhverfinu. Vart hafi orðið við lýsi í litlum pollum við flugvöllinn, fylgjast yrði með hvort fuglar færu í lýsið og fara með efni þangað ef fuglunum væri hætta búin.

Að öðru leyti hefði verið talið réttast að náttúran bryti niður lýsið. „Betra getur verið að gera minna en meira í tilvikum þar sem um lífræna olíu er að ræða,“ segir Sigríður í skriflegu svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Farið var fram á það að fjaran yrði vöktuð daglega og eftirlitsskýrslu um vöktunina skilað til Umhverfisstofnunar vikulega. Einnig var farið yfir verklag hjá Loðnuvinnslunni og krafist úrbóta sem tryggðu að svona atvik endurtaki sig ekki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.