
Tæplega 23 stiga hiti á Austurlandi
Hitinn á Egilsstöðum klukkan 11 í morgun mældist 22,7 gráður. Örlítið kaldara var á Hallormsstað. Útlit er fyrir áframhaldandi blíðu næstu vikuna.Að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings hjá Bliku er það hlýr vindur úr vestri sem skapar þessa góðu daga og gerir það áfram. „Það er spáð fínum dögum um helgina, vestangolu og hlýju lofti,“ segir hann.
Segja má að spáin sé góð alla næstu viku, sól og um 20 stiga hita. Í spá Bliku er þó gert ráð fyrir snarpri kólnun sunnudaginn eftir viku þegar reiknað er með að kuldapollur frá norðvestur-Grænlandi fari yfir landið. „Það er þó langt þangað til,“ segir Einar.