Skip to main content

Tæp 90% Austfirðinga vilja halda Reykjavíkurflugvelli á sínum stað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. okt 2024 09:50Uppfært 15. okt 2024 09:50

Austfirðingar eru langákveðnastir í sinni afstöðu gagnvart því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni, samkvæmt nýrri skoðanakönnun.


Maskína spurði hvort fólk væri hlynnt eða andvígt því að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Afstaða Austfirðinga er mjög eindregin, 88,8% segjast hlynnt því að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Enginn af svæðinu kvaðst andvígur staðsetningunni en 11,2% sögðust í meðallagi hlynnt.

Á landsvísu sögðust 48% hlynnt staðsetningunni. Sá stuðningur hefur dvínað. Lengst af var meirihluti hlynntur, allt upp í 72% þegar Maskína spurði fyrst út í staðsetninguna árið 2013.

Meira segja á öðrum dreifbýlissvæðum nær stuðningurinn engan vegin þeim hæðum sem hann gerir á Austurlandi. Á Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi mælist stuðningurinn yfir 60% með 10% á móti. Á Suðurlandi, Reykjanesi og nágrenni Reykjavíkur er stuðningurinn um 45% en 38% í Reykjavík.

Eldra fólk er mun hlynntara veru flugvallarins í Vatnsmýrinni en það yngra. Þá styðja kjósendur Framsóknarflokks, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks helst núverandi staðsetningu.