Orkumálinn 2024

Tækifæri til að spyrja heilbrigðisráðherra beint út

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, er væntanleg austur á land á fimmtudag til að kynna heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Ráðherra ásamt fleirum mun þá sitja fyrir svörum um stefnuna á opnum fundi.

„Heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum hvers samfélags. Þegar kynnt er stefna til næstu tíu ára tel ég mikilvægt að fólk kynni sér hana og hafi skoðanir á henni,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Stefnan var samþykkt á Alþingi í byrjun júní og er ráðherra þessa dagana á ferð um landið til að kynna hana og ræða við hagsmunaðila.

Klukkan fimm á fimmtudag verður haldinn opinn fundur í Valaskjálf þar sem stefnan verður kynnt. Fjallað verður um hvað felst í stefnunni, hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvers vegna hún skiptir svo miklu máli, hvort heldur í þéttbýli eða í dreifðari byggðum landsins.

„Í stefnunni er meðal annars talað um aðgengi að þjónustu og hlutverk og samvinnu heilbrigðisstofnana,“ segir Guðjón.

Hann mun hafa framsögu um sjónarhorn HSA og Austurlands á stefnuna og ráðherra kynnir stefnuna sjálfa. Þriðju framsöguna flytur María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands um áhrif stefnunnar á hlutverk og starfsemi stofnunarinnar sem sér um alla samningagerð um heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þar á meðal við sérgreinalækna og fyrir sjúkraflug.

Eftir framsögurnar verður pallborð sem í sitja, auk framsögufólks, Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfirði.

Streymt verður frá fundinum á vef Heilbrigðisstofnunar Austurlands https://www.hsa.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.