Tækifæri til að spyrja heilbrigðisráðherra beint út

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, er væntanleg austur á land á fimmtudag til að kynna heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Ráðherra ásamt fleirum mun þá sitja fyrir svörum um stefnuna á opnum fundi.

„Heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum hvers samfélags. Þegar kynnt er stefna til næstu tíu ára tel ég mikilvægt að fólk kynni sér hana og hafi skoðanir á henni,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Stefnan var samþykkt á Alþingi í byrjun júní og er ráðherra þessa dagana á ferð um landið til að kynna hana og ræða við hagsmunaðila.

Klukkan fimm á fimmtudag verður haldinn opinn fundur í Valaskjálf þar sem stefnan verður kynnt. Fjallað verður um hvað felst í stefnunni, hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvers vegna hún skiptir svo miklu máli, hvort heldur í þéttbýli eða í dreifðari byggðum landsins.

„Í stefnunni er meðal annars talað um aðgengi að þjónustu og hlutverk og samvinnu heilbrigðisstofnana,“ segir Guðjón.

Hann mun hafa framsögu um sjónarhorn HSA og Austurlands á stefnuna og ráðherra kynnir stefnuna sjálfa. Þriðju framsöguna flytur María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands um áhrif stefnunnar á hlutverk og starfsemi stofnunarinnar sem sér um alla samningagerð um heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þar á meðal við sérgreinalækna og fyrir sjúkraflug.

Eftir framsögurnar verður pallborð sem í sitja, auk framsögufólks, Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfirði.

Streymt verður frá fundinum á vef Heilbrigðisstofnunar Austurlands https://www.hsa.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar