Orkumálinn 2024

„Það getur skipt miklu máli að hafa nákvæma ungbarnavog“

Fulltrúar frá Marel færðu fæðingardeild Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað fullkomna ungbarnavog að gjöf á dögunum en fyrirtækið hefur á undanförnum árum gefið fæðingardeildum á landinu á þriðja tug slíkra voga sem leysa af hólmi eldri og ónákvæmari vogir.


Nýja vogin vinnur með tveggja gramma nákvæmni og tekur fullkomið tillit til hreyfinga sem hugsanlega eru á barninu sem verið er að vigta. Þá veitir Marel eilífðarábyrgð á vigtinni og mun sinna öllum þáttum viðhalds hennar. Valdimar Gunnar Sigurðsson og Óskar Veigu Óskarsson sem afhentu vogina fyrir hönd Marels. 


Ingibjörg Birgisdóttir ljósmóðir á Fjórðungssjúkrahúsinu segir að Marel eigi miklar þakkir skildar fyrir höfðinglega gjöf.

„Það ar alltaf ánægjulegt að taka á móti gjöf eins og þessari og hún kemur til með að nýtast vel. Það getur skipt miklu máli að hafa nákvæma ungbarnvog svo unnt sé að fylgjast vel með hve barn léttist mikið fyrstu dagana eftir fæðingu. Ef börn þyngjast ekki sem skyldi þarf að vigta þau bæði fyrir og eftir gjafir svo unnt sé að fylgjast með hvort þau fá nægju sína. Gamla vigtin okkar vigtaði einungis með tíu gramma nákvæmni þannig að þessi nýja vigt er miklu betri og kemur sér afar vel,“ segir Ingibjörg.

Sjávarútvegsfyrirtækin í Fjarðabyggð meðal tryggustu viðskiptavina Marel

Þeir Valdimar Gunnar og Óskar segja að það sé svo sannarlega ánægjulegt að heimsækja fæðingardeildir og færa þeim vigtar að gjöf. Þá kom fram hjá þeim að sjávarútvegsfyrirtækin í Fjarðabyggð séu á meðal tryggustu viðskiptavina Marel og því sé ánægjulegt að geta látið gott af sér leiða fyrir samfélagið.

Við afhendingu vogarinnr voru staddir fulltrúar frá Síldarvinnslunni og Eskju en það var einmitt Hlynur Ársælsson rekstrarstjóri uppsjávarvinnslunnar hjá Eskju sem benti Marel á að þörf væri á að endurnýja ungbarnavigt á fæðingardeildinni í Neskaupstað. Hlynur og kona hans, Agla Heiður Hauksdóttir, hans hafa notið þjónustu deildarinnar á árunum 2013, 2015 og 2017 og þekkja því vel til.

 

Frá afhendingu ungbarnavogarinnar. Talið frá vinstri: Óskar Veigu Óskarsson frá Marel, Valdimar Gunnar Sigurðsson frá Marel, Hrafnhildur Lóa Guðmundsdóttir, ljósmóðir, Jónína Salný Guðmundsdóttir ljósmóðir, Ingibjörg Birgisdóttir ljósmóðir, Þórhalla Ágústsdóttir deildarstjóri sjúkradeildar, Sigríður Kristinsdóttir sviðstjóri hjúkrunar HSA og Nína Hrönn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar HSA. Ljósmynd: Smári Geirsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.