„Það er orðið tímabært að karlmenn láti sig þessi mál varða“

„Þetta er mikið vandamál, en staðreyndin er sú að það er allskonar fræðsla í boði en ef það er eitthvað sem tengist geð- eða forvarnarmálum, þá mæta bara konur,“ segir Margrét Perla Kolka sem fer fyrir forvarnarteymi Verkmenntaskóla Austurlands.Forvarnarteymi Verkmenntaskólans stendur fyrir málþinginu „Erum við góð við hvert annað“ á laugardaginn í samstarfi við Foreldrafélag VA, Foreldrafélag Nesskóla og Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar að málþinginu. Er þetta sjöunda árið í röð sem sambærilegt málþing er haldið en í ár er það hugsað sem leið til að berjast gegn ofbeldi af ýmsu tagi.

Við erum aðeins með kvenfyrirlesara í ár, sem er óvanalegt, við höfum yfirleitt reynt að hafa það nokkuð jafnt. Í fyrra lögðum við okkur mikið fram við að reyna að höfða sérstaklega að til karlmanna, meðal annars með því að fá til okkar fræga íþróttahetju. Þeim fjölgaði aðeins en alls ekki nóg. Það er bara mín skoðun að feður og allir forráðamenn eigi að vera meðvitaðir og kynna sér þessi mál, en algengasta dánarorsök ungra karlmanna er sjálfsvíg. Fólk almennt veit ekki nóg um þessa hluti.

Þetta er alveg merkilegt, ef horft er á fréttir þar sem verið er að tala um deiliskipulag eða laxeldi, þá er salurinn fullir af karlmönnum. Um leið og málefnið tengist svo börnunum okkar og forvörnum af einhverju tagi láta þeir ekki sjá sig, þetta virðist bara ekki ofarlega á þeirra forgangslista sem er mjög sorglegt,“ segir Margrét Perla.


Náum ekki árangri nema allir taki þátt

Margrét Perla segir það aðallega hafa verið konur sem hafa barist fyrir bættu samfélagi hvað ofbeldismál varðar. „Það er orðið tímabært að karlmenn láti sig þessi mál varða, þeir eru jú í flestum tilfellum gerendur.

Þó svo að blessunarlega fæstir hafi beitt ofbeldi getum við ekki horft fram hjá því að fimmta hver stelpa og tíundi hver strákur hefur lent í kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur, fyrir utan allt hitt. Við þurfum ekki að vera gerendur til þess að láta okkur þetta varða, það er enginn sem fer í gegnum lífið án þess að þekkja einhvern sem hefur lent í ofbeldi af einhverju tagi. Við munum ekki ná árangri nema við látum okkur þetta öll varða, ekki bara annað kynið.

Ef við horfum bara á tölfræði milli landa sjáum við að það er mikill munur á tíðni ofbeldis – þetta er ekkert lögmál og við getum haft áhrif. Viðhorf samfélagsins hefur mikið að segja og við erum öll ábyrg.“

Málþingið fer fram í Nesskóla á laugardaginn milli klukkan 11:00 og 14:00 og er það ókeypis og öllum opið. Nánar má lesa um dagskrána hér. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar