„Það er Gullfoss, Geysir og Dinerinn“

Skálinn Diner var opnaður á Egilsstöðum þann 1. maí síðastliðinn í því húsnæði sem Shell-skálinn var áður. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða veitingastað að amerískri fyrirmynd.
Eigandi staðarins er Þráinn Lárusson en rekstrarstjóri er Björn Berg Pálsson. „Þráinn var búinn að ganga með þá hugmynd lengi að opna „diner“ á Egilsstöðum. Hann ferðaðist um Bandaríkin og skoðaði flottustu og umtöluðustu dinerana og reyndi að grípa það besta frá hverjum og einum,“ segir Björn Berg um tilurð Skálans Diner. Slíkir staðir voru algengir í Bandaríkjunum á sjötta áratugnum og höfðu allir svipað yfirbragð, þar sem boðið var upp á ekta bandarískan mat á borð við hamborgara og kjúklingavængi á meðan tónlistin hljómaði úr glymskrattanum.

Aðsókn farið fram úr öllum vonum
Björn Berg segir viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum. „Við bjuggumst við mikilli aðsókn en ekkert í líkingu við það sem hefur verið. Það hefur verið brjálað að gera. Við höfum heyrt frá eldri Bandaríkjamönnum að þetta sé flottasti dinerinn sem þeir hafa séð síðan þeir voru krakkar en slíkum stöðum fær fækkandi. Viðkoma hjá okkur er orðinn partur af ferð Bandaríkjamanna til Íslands: það er Gullfoss, Geysir og Dinerinn. Að sama skapi eru Evrópubúar og aðrir ferðamenn alveg agndofa, búast alls ekki við að sjá amerískan diner í stíl sjötta áratugarins út í sveit á Íslandi. Eldra fólkið elskar þetta, sem og yngra fólkið, því þetta „lúkk“ er svo mikið í sjónvarpsþáttum í dag, s.s. Riverdale og fleiri þáttum.“

Instagram er risastórt markaðstæki
Ég held að ástæðan fyrir þessari miklu aðsókn sé að mestu leyti snjallforritinu Instagram að þakka. Þó svo við Íslendingar séum farnir að nota það í meira mæli en áður er það enn meira notað í Bandaríkjunum, annars staðar í Evrópu og Asíu. Gestir okkar taka kannski mynd af „jukeboxinu“ (glymskrattanum) hjá okkur og setja mynd með millumerkinu okkar á Instagram eða Snapchat. Þegar svo aðrir slá leitarorðinu upp kemur mynd frá Skálanum Diner sem vekur áhuga. Instagram er orðið risastórt markaðstæki og hefur miklu meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir.“

Suðurríkjakjúklingur og plokkfiskur á matseðlinum
Matseðilinn er bæði íslenskur og amerískur. „Við erum með þetta klassíska; hamborgara og „Southern Fried Chicken“ eða suðurríkjakjúkling. Einnig pítur, báta og ís en það er alltaf vinsælt að panta borgara og sjeik. Við erum einnig með íslenska rétti á borð við kótilettur í raspi og plokkfisk. Ég var örlítið efins um þessa blöndu til þess að byrja með en þetta hefur gefist alveg einstaklega vel. Erlendir ferðamenn eru mjög hrifnir af því að setjast inn á diner en geta pantað sér klassíska, íslenska rétti.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar