Skip to main content

Sýslumenn rífa í sig frumvarp ráðherra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2022 14:05Uppfært 25. júl 2022 14:05

Sýslumannafélag Íslands segir tillögur dómsmálaráðherra um sameiningu sýslumannsembættanna í eitt vera „loftkenndar“ og uppfullar af „orðaleppum.“ Ekkert sé fast í hendi til að styðja fullyrðingar um að sameiningin auki þjónustuna og lýst er áhyggjum af því að réttindi starfsfólk verði rýrð.


Þetta kemur fram í umsögn félagsins um drög um lögum um sýslumann sem dómsmálaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í umsögnum Skagafjarðar og Sameykis stéttafélags eru gerðar athugasemdir við að frumvarpið sé birt á hásumarleyfistíma og knappur tími gefinn til umsagnar.

Það breytir því ekki að Sýslumannafélag hefur skilað inn langri umsögn sem almennt er ekki jákvæð í garð frumvarpsins. Þar segir meðal annars að mikið skorti á að tillögur ráðherra séu unnar á faglegum forsendum.

Sýslumannsembættin eru níu eftir breytingar og sameiningar þeirra árið 2015. Sú sameining hefur verið gagnrýnd, meðal annars að hún hafi verið vanfjármögnuð og illa undirbúin verkefnalega. Slíkt kemur meðal annars fram í skýrslu sem unnin var í fyrra og ráðherra hefur vísað til breytinganna nú.

Óljóst hvar embættið verði

Stærsta breytingin frá núverandi skipulagi sýslumannsembættanna er að til stendur að sameina þau undir einni yfirstjórn. Í drögunum segir að sýslumaðurinn muni hafa aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins. Síðan verði landinu skipt upp í níu embætti, eins og í dag. Eitt þeirra verður Austurland og á að lágmarki að veita þjónustu á Egilsstöðum, Eskifirði, Seyðisfirði og Vopnafirði.

Sýslumannafélagið spyr hvað meint sé með aðsetri sýslumanns, hvort það sé landsskrifstofan eða aðeins búseta þess sem gegnir æðsta embættinu. Eins er bent á að ekkert standi um hvernig aðsetrið verði valið. Varað er við talsverðu valdaframsali frá löggjafanum til ráðherra.

Þá eru gerðar athugasemdir við að ekki séu gerðar kröfur um að sýslumaðurinn hafi lögfræðimenntun, heldur aðeins svæðisstjórarnir níu. Nær væri að snúa því við. Félagið telur fullyrðingar um að tilurð eins embættis eigi rætur sínar í skýrslunni frá í fyrra „í besta falli mjög misvísandi.“

Órökstuddar fullyrðingar um bætta þjónustu

En það sem kannski helst stendur upp úr í gagnrýni Sýslumannafélagsins er óttinn við að fögur fyrirheit um aukin verkefni og hagræðinu séu aðeins vísbending á sömu ógöngurnar og sameiningarnar 2015 skiluðu fyrir rest.

Sýslumannafélagið segir óraunhæft að vænta þess að starfsemin styrkist þar sem engin ákvörðun liggi fyrir um verkefni sem færð verði til sýslumanna. Þvert á móti hafi í gegnum tíðina efndir um dreifingu starfa við endurskipulagningu stofnana á landsbyggðinni „verið rýrari en fjöldi áforma sem kynntur hefur verið.“ Á sama tíma hafi opinberar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu verði endurskipulagðar til að sinna áfram óstaðbundnum verkefnum.

Ákvæði um að sýslumanni sé ætlað að tryggja aðgengi að opinberri grunnþjónustu óháð búsetu er lýst sem „dæmi um loftkennda skilgreiningu sem erfitt er að fá merkingu í.“ Fullyrðing um að erfitt sé að bæta þjónustu við almenning án þess að taka skipulag sýslumannsembættanna til gagngerrar endurskoðunar er sögð koma eins og skrattinn úr sauðaleggnum „beinlínis í andstöðu við veruleikann enda er hvergi reynt að rökstyðja hana.“

Boðað hefur verið að allt núverandi starfsfólk embættanna fái vinnu hjá því nýja. Sýslumannafélagið óttast að það loforð haldi ekki þegar á reyni, miðað við stöðuna í ríkisfjármálum. Hætta sé á að launamunur, sem til staðar er milli embætta, verði leiðréttur niður á við þannig kjör starfsfólk verði skert. Þar sem nákvæma fjárhagsáætlun vanti sé óvissa um rekstrargrundvöll og þarf með framtíð starfa og starfsfólks hjá embættunum um allt land.

Loftkenndir orðaleppar

Áformin voru fyrst kynnt sýslumönnum og starfsfólki embætta í mars. Sýslumannafélagið gagnrýnir að ekkert hafi verði tekið tillit til athugasemda þess síðan fyrir birtingu frumvarpsins í samráðsgátt. Þeim þykir að sér vegið þar sem ekkert sé bent á framfarir sem þó hafi orðið á síðustu árum, til dæmis í stafrænum lausnum.

Félagið afneitar ekki þörf á endurskoðun embættanna en hún verði að vinnast á allt öðrum forsendum. Skoða verði núverandi verkefni, meta líklegar breytingar og að fyrir liggi ný verkefni sem falin verði embættunum.

„Heildareinkenni draganna er langt og loftkennt mál. Er það vegna sífelldra endurtekninga á sömu fullyrðingum og orðleppum,“ segir í niðurlagi umsagnarinnar. Til kunni að vera rök fyrir breytingunum en þau finnist ekki í drögunum.