Skip to main content

Syrtir í álinn fyrir kjördag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. nóv 2024 10:58Uppfært 28. nóv 2024 10:59

Veðurspá laugardags, kjördags Alþingiskosninga, virðist heldur fara versnandi. Von er á mikilli snjókomu á Austfjörðum. Veðurfræðingur telur líkur á að þar verði ófært innanbæjar og jafnvel að einhvers staðar skapist snjóflóðahætta.


Á þessu er vakin athygli í yfirliti Bliku sem Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, skrifar. Þar segir að lægð komi upp að landinu á föstudag og strax annað kvöld byrji að snjóa frá henni á Austfjörðum. Að morgni laugardags muni snjóa um allan austurhelming landsins en snjókoman verði þéttust á Austfjörðum og líkur á mikilli uppsafnaðri úrkomu.

Þannig sýnir spáin 29-64 mm á Fjarðarheiði og 36-71 mm í Neskaupstað. Nánar segir Einar að á norðanverðum Austfjörðum geti uppsöfnuð úrkoma orðið 50-100 mm. Þessi mikla uppsafnaða úrkoma geti kallað á viðbúnað vegna mögulegrar snjóflóðahættu.

Enn virðist óvissa hvort mesti vindstrengurinn nái upp á land eða haldi sig úti fyrir Austfjörðum. Búist er við að það hvessi þegar líður á daginn þannig að nýi snjórinn fjúki í skafla. Slíkt geti skapað ófærð innanbæjar á Austfjörðum og umhverfis Egilsstaði. Vindáttin ræður hvort Fagridalur verði í skjóli en á Fjarðarheiði er von á 12-15 m/s allan daginn. Til viðbótar er hætta á sviptivindum í kringum Höfn og á sunnanverðum Austfjörðum.

Kjörstjórnir hafa undanfarna daga rýnt í veðurspár og undirbúið mögulegar aðgerðir, svo sem að einnig verði kosið á sunnudag, þegar veðrið á að vera gengið niður. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst verða engar stórar ákvarðanir teknar fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Snjóflóðaeftirlitsmenn Veðurstofu Íslands hafa í vikunni tekið gryfjur og skoðað gögn eftir snjókomu undanfarinna daga. Samkvæmt yfirliti ofanflóðadeildarinnar hefur eitt lítið snjóflóð fallið, í Reyðarfirði á mánudag.