Orkumálinn 2024

Sýknaður þrátt fyrir játningu

Ríflega tvítugur karlmaður hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa hindrað störf lögreglu með því að ýta við lögregluþjóni.

Ákæran gegn manninum var í þremur liðum. Í fyrsta lagi fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu með því að hætta ekki tafarlaust átökum og koma sér af vettvangi. Í öðru lagi fyrir að tálma störf lögreglu með að ýta harkalega við einum lögregluþjóni og toga í annan.

Í þriðja lagi var maðurinn ákærður fyrir líkamsárás. Hann fór inn um bílstjórahurð fólksbifreiðar og sló einstakling sem sat í farþegasætinu nokkrum hnefahöggum í andlit. Fyrir dómi var fallið frá lýsingu um áverka sem hefðu hlotist af árásinni og játaði þá maðurinn alla ákæruliði.

Hann var hins vegar aðeins sakfelldur fyrir líkamsárásina því dómari féllst ekki á hvernig lagt var upp með ákæruna fyrir brotið gegn lögregluþjónunum. Maðurinn var ákærður fyrir brot á 21. grein lögreglulaga þar sem segir að ekki megi á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum.

Í dóminum kemur fram að ekki sé til dómaframkvæmd um hvers konar háttsemi falli undir þá lagagrein. Dómurinn taldi hins vegar að það að ýta við lögregluþjóni falli ekki þar undir. Brot gegn greininni varða aðeins fjársektum og taldi dómurinn ótækt að færa háttsemina undir önnur ákvæði sem þyngri refsing lægi við.

Því var maðurinn sýknaður af þeim hluta ákærunnar og engin refsing gerð vegna hennar, þótt hann hefði játað og engar athugasemdir verið gerðar við ákæruliðinn við flutning málsins.

Maðurinn var því sakfelldur fyrir líkamsárásina og benti dómari að þar hefði sannarlega átt sér stað árás gegn líkama annars einstaklings þótt áverkar væru ósannaðir. Þrjátíu daga fangelsi var því talin hæfileg refsing en í ljósi ungs aldurs, játningar og þess að maðurinn hafði ekki áður komist í kast við lögin var talið rétt að skilorðsbinda hana í tvö ár. Maðurinn þarf að auki að greiða allan sakarkostnað, rúmar 200.000 krónur.

Ákærurnar tengjast allar atvikum sem gerðust í sumarbústaðahverfinu að Einarsstöðum í desember 2018. Austurfrétt fjallaði á sínum tíma um þau en þrír voru fluttir á heilsugæsluna á Egilsstöðum í kjölfar þeirra. Þáverandi yfirlögregluþjónn sagði málið litið alvarlegum augum, bæði því ráðist hefði verið á saklaust fólk að skemmta sér en einnig því snúist hefði verið gegn lögreglunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.