Sýknaður þótt frásögnin væri með ólíkindablæ

Héraðsdómur Austurlands hefur sýknað karlmann af ákæru um ölvunarakstur. Dómurinn taldi ákæruvaldið ekki hafa náð að afsanna framburð mannsins, þótt hann væri „með ólíkindablæ.“

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa keyrt ölvaður, með 1,21 prómilli í blóði, frá heimili sínu að sjúkrahúsi staðarins og lagt þar upp á gangstétt þannig hún lokaðist fyrir gangandi umferð í febrúar 2020.

Maðurinn á að hafa ekið þangað að beiðni unnusta síns. Parið hafði verið að drekka og skemmta sér fyrr um kvöldið, en gamanið súrnaði þegar á leið og fór annar mannanna út af heimilinu. Sá sem heima var hafði áhyggjur og kallaði því til lögreglu.

Á vakt í bænum bænum var bæði fyrrum félagi hans úr grunnskóla sem að auki bjó á hæðinni fyrir ofan parið. Lögreglumaðurinn fann fljótt þann sem hafði brugðið sér af bæ og fylgdi honum á sjúkrahúsið þar sem hlúð var að honum.

Snarlega handtekinn

Hinni meinti ökumaður mætti þangað skömmu síðar. Hann mun hafa verið sýnilega drukkinn og hafa játað að hafa ekið heiman frá sér fyrir lögreglumanninum. Hann afhenti lyklana um leið og hann var beðinn um það.

Lögreglumaðurinn kallaði strax eftir aðstoð og mætti varðstjóri á staðinn skömmu síðar. Hann handtók strax hinn meinta ökumann og færði hann til blóðsýnatöku. Morguninn eftir var tekin skýrsla af ökumanninum þar sem hann játaði ökuferðina. Hún var hins vegar ekki undirrituð fyrr en rúmu hálfu ári síðar, af lögreglumanninum sem fyrst var kallaður út.

Óþekktur kunningi

Þegar málið kom fyrir dóm var frásögn hans töluvert önnur. Hann sagðist hafa verið fyrir utan heimili sitt um nóttina þegar hann sá kunningja sinn ganga hjá og beðið hann um að skutla sér á sjúkrahúsið. Sá hefði fallist á að keyra, þrátt fyrir að vera einnig ölvaður, gegn því að maðurinn tæki á sig sökina ef þess þyrfti.

Hinn meinti ökumaður hélt því þannig fram að hann hefði verið farþegi í ferðinni. Kunninginn hefði snarlega látið sig hverfa þegar hann sá lögreglubifreiðina en maðurinn staðið við sitt. Þrátt fyrir eftirgrennslan síðar meir gat ákærði ekki munað nafn kunningjans nógu vel þannig hægt væri að hafa uppi á honum. Hinn meinti ökumaður kvaðst hafa komið inn á sjúkrahúsið en farið aftur út til að sækja lyklana í kveikjulás bílsins. Síðan hefði allt farið þar úr böndunum.

Fyrir dóminum lá fyrir afrit af skóförum sem varðstjórinn tók í snjónum þessa nótt. Varðstjórinn sagðist aðeins hafa séð skóför eins einstaklings og þau hefðu ekki legið að farþegahurðinni. Útilokað væri því að maðurinn hefði farið sérstaklega til að ná í lyklana.

Kvaðst hafa verið út úr heiminum

Hinn meinti ökumaður krafðist einnig frávísunar málsins vegna vanhæfni lögreglunnar. Hann hélt því fram að um mánuði eftir atvikið hefði unnusti hans haldið framhjá sér með lögreglumanninum á efri hæðinni og sambúðinni þar með lokið. Lögreglumaðurinn bar á móti að hafa vaknað upp við unnustann í íbúð sinni. Hann hefði látið yfirmann sinn vita af samskiptum þeirra. Dómurinn taldi þetta ekki valda vanhæfi lögregluembættisins þótt betra hefði verið að lögreglumaðurinn hefði ekki gert skýrsluna. Frávísunarkröfunni var hafnað.

Hinni meinti ökumaður skýrði breytta frásögn sína með því að hann hefði verið út úr heiminum þegar hann gaf frumskýrsluna. Að auki hefði honum verið boðin vægari refsing gegn játningu. Lögreglan mótmælti þeirri fullyrðingu og bætti við að hann hefði verið orðinn vel viðræðuhæfur þótt hann skammaðist sín. Engin svör fengust hvers vegna frumskýrslan var ekki staðfest fyrr en hálfu ári eftir atburðina.

Ófullnægjandi gögn

Þótt í niðurstöðu héraðsdóms sé nýrri frásögn hins ákærða lýst sem „með ólíkindablæ“ sé hún „ekki með öllu útilokuð.“ Dómur byggist aðeins á sönnunargögnum og þau skorti í málinu. Þannig hafi engin vitni verið að akstrinum þessa nótt né nein lýsing eða mæling á skóbúnaði mannsins sem hægt væri að bera saman við förin í snjónum.

Eftir standi ekki önnur gögn en skýrslan sem tekin var morguninn eftir aksturinn. Þau dugi ekki til að hnekkja neitun mannsins né frásögn hans á annan hátt. Hann var því sýknaður auk þess sem málsvarnarlaun upp á 850 þúsund krónur greiðast úr ríkissjóði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.