Svipuð hreyfing áfram á jarðvegsflekanum

Svipuð hreyfing er eins og verið hefur á jarðvegsflekanum við Búðará á Seyðisfirði sem varð til þess að níu íbúðarhús við ána voru rýmd í byrjun vikunnar. Beðið er eftir að sjá nákvæmlega hver áhrif mikillar úrkomu í gær verða á hreyfinguna.

„Það er hreyfing á þessum sama hrygg, svipuð og hún hefur verið. Mögulega er hún örlítið meiri nú en það er ekki óeðlilegt eftir þessa úrkomu,“ segir Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands.

Hjá Veðurstofunni má sjá færslu á tveimur mælum, speglum, sem staðsettir eru á flekanum. Sá sem lengra hefur farið hefur hreyfst um 5,5 sm síðan á laugardag.

Þar má einnig sjá vatnshæð í borholum á svæðinu. Þeir mælar uppfærast ekki jafn ört og eru myndirnar síðan í nótt. Eins tekur tíma fyrir regnið sem féll til jarðar í gær að seytla niður í jarðveginn. Því eru vatnshæðin þar enn á uppleið á myndunu.

Magni segir rigninguna í gær hafa verið svipaða og spáð var, en hún mældist rúmir 40 mm. Mest var hún á fimmta tímanum, tæpir 30 mm. Eftir það tók að draga úr henni og var þurrt að kalla eftir klukkan níu.

Aftur er spáð úrkomu annað kvöld en mun minni. Magni reiknar ekki með að hún hafi frekari áhrif á framskrið en beðið er eftir hvernig flekinn hegðar sér eftir úrkomuna í gær. Þess vegna er rýming í gildi fram yfir helgi.

Magni kveðst reikna með að svæðið verði skoðað í dag. Þá stendur til að bæta við speglum bæði á flekann sjálfan og nágrenni hans til að nánar sé hægt að mæla stærð hans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.