Sviptur ökuleyfi fyrir vítaverðan ölvunarakstur

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann til að sæta sviptingu ökuleyfis í tvö og hálft ár fyrir vítaverðan akstur undir áhrifum áfengis. Litlu mátti muna að maðurinn æki framan á bíl sem kom úr gagnstæðri átt.

Atvikið átti sér stað ofan við álverið á Reyðarfirði í byrjun júlí í fyrra. Maðurinn kom frá Eskifirði en ökumaður sem var með tveggja ára gamalt barn með sér í bifreið snni kom úr gagnstæðri átt.

Sá ökumaður, sem og annar í bíl skammt á eftir, lýstu í skýrslutökum að aksturslag ákærða hefði borið þess merki að ekið væri langt yfir hámarkshraða og bifreið hans sveiflast milli vegarhelminga.

Vitnin báru að þeim hefði ekki litist á blikuna og ökumaðurinn kvaðst hafa hægt verulega ferðina til að vera viðbúinn öllu. Skömmu áður en bílarnir mættust áttaði ákærði sig á hvað gæti gerst og beindi bíl sínum út af vinstri vegarhelmingi til að forða árekstri.

Í læknisskoðun kom í ljós að vínandamagn hans í blóði reyndist 2,04‰. Fyrir dómi játaði hann ölvunarakstur en neitaði ákæru um að hann hefði raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stefnt öryggi vegfarenda í augljósa hættu á ófyrirleitinn hátt.

Hann sagði atvikalýsinguna óskýra, að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna ásetning hans auk þess sem hann hefði stýrt bílnum frá árekstri.

Dómurinn taldi hann ekki sekan um að hafa raskað öryggi á alfaraleið, meðal annars með vísan til þess að lítil umferð hefði verið þennan morgun. Háttsemi hans væri samt sem áður vítaverð og alvarleg, hann óhæfur til að stjórna bifreið sökum ölvunar og ekki gæti dulist að aksturslag hans hefði verið til þess fallið að valda hættu.

Refsingin var því ákveðin 45 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára auk 250 þúsund króna sektar. Þá missir maðurinn ökuleyfið í tvö og hálft ár auk þess sem hann þarf að greiða 250 þúsund krónur í sakarkostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar