Sverrir Mar gefur kost á sér til formanns ASÍ

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, hefur lýst yfir framboði til formanns Alþýðusambands Íslands. Núverandi formaður, Gylfi Arnbjörnsson, gaf nýverið út að hann sæktist ekki eftir endurkjöri á þingi sambandsins í haust.

„Ég held að við stöndum á krossgötum núna. Það hafa verið harðar deilur innan verkalýðshreyfingarinnar og jafnvel hætta á því að Alþýðusamband Íslands skaðist varanlega af þessum deilum.

Gylfi ákvað að stíga til hliðar til að freista þess að skapa einhverja sátt um Alþýðusambandið og ég held að næstu ár verði mikilvægt að halda opnu samtali milli allra hópa innan vébanda ASÍ og freista þess að skapa frið,“ segir Sverrir í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Sverrir hefur verið framkvæmdastjóri AFLs frá 2005 og kom þangað eftir að hafa séð auglýsingu frá félaginu í vinnuskúr á Kárahnjúkum þar sem hann vann sem bílstjóri.

„Ég var á norsku frystiskipi og fiskaði mest í Barentshafinu – en við vorum líka á ufsa við Shetlandið og löngu og keilu við Færeyjar. Á sumrin fór ég svo gjarna á hákarlaveiðar í Norðursjónum og það var skemmtilegur veiðiskapur. Árið 2005 tók ég mér nokkurra mánaða frí frá sjónum og réð mig á Kárahnjúka til þriggja mánaða – en einhverra hluta vegna er ég enn á Austurlandi.

Austfirðingar tóku mér vel í þessu nýja starfi en ég þurfti vissulega að læra ótal margt uppá nýtt og tileinka mér fagleg vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar. Stundum hef ég átt erfitt með að sætta mig við hægaganginn í mörgum málum. Við vorum vanir að leysa málin hratt og örugglega til sjós og þá var ekkert hægt að kalla á aðstoð eða hringja á vælubílinn.“

Mikilvægt að efla sjálfstæði félaganna

Sverrir kom að sameiningu þriggja stéttarfélaga, gamla AFLs, Vökuls og Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar undir merkjum AFLs 2007, sem hann segir hafa verið gæfuskref sem vonandi sé sátt um í dag þótt átök hafi verið verið á sínum tíma.

Sverrir hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir ASÍ, meðal annars setið í miðstjórn sambandsins. Aðspurður um áherslur hans ef hann næði kjöri svarar hann:

„Ég myndi vilja helga næstu árin því að byggja upp félagslega samstöðu innan Alþýðusambandsins og hverfa dálítið aftur að upprunanum. Samningsrétturinn liggur hjá hverju félagi og menn hafa verið að fara saman í viðræður af því það hefur verið talið skila meiri árangri, en á sama hátt þá getur það grafið undan tiltrú hjá einstökum hópum sem finnast hagsmunir þeirra fyrir borð bornir. Ég tel því mikilvægt að efla sjálfstæði félaganna.

Á liðnum áratugum höfum við haft mjög áberandi forseta og sterka sem hafa komið inn í forystu úr starfsmannahópi sambandsins. Þetta hafa verið afgerandi einstaklingar sem hafa styrkt hlutverk ASÍ sem forystuafls. Ég tel nauðsynlegt að næsti forseti komi úr félagsstarfinu – einhver sem skilur að allt vald Alþýðusambandsins á uppruna í félögunum. Alþýðusambandið á að þjóna aðildarfélögum en ekki öfugt.

Alþýðusambandið á að vera hinn faglegi samráðsvettvangur og faglegt bakland fyrir félögin. Þar eigum við að fjalla um okkar sameiginlegu mál og um samfélagsmálin og fylkja okkur þar á bak við sameiginleg markmið.

Flest aðildarfélög Alþýðusambandsins eru sterk og öflug félög og fullfær um að veita kjarasamningum sínum forystu og bera ábyrgð á þeim. Það á allajafna ekki að vera hlutverk Alþýðusambandsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.