Orkumálinn 2024

Sveitarstjórn einhuga að baki tilboði um starfslok sveitarstjóra

Oddviti Vopnafjarðarhrepps segir sveitarstjórn hafa alla staðið að baki því að bjóða Þór Steinarssyni, fráfarandi sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, samkomulag um starfslok. Þór lét af störfum í gær.

„Sveitarstjórnin stóð öll að þessu boði, ekki bara meirihlutinn,“ segir Sigríður Bragadóttir, oddviti sveitarstjórnar sem jafnframt er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn.

Framsóknarflokkur fékk þrjá menn kjörna í síðustu sveitarstjórnarkosningum og myndaði meirihluta með Betra Sigtúni sem fékk tvo fulltrúa. Samfylkingin hefur verið í minnihluta með tvo.

Um frétt á heimasíðu Vopnafjarðarhrepps um starfslokin, sem framboðin þrjú hafa öll birt á eigin vefsetrum, er ítrekað að rangt sé að Þór hafi haft frumkvæði að starfslokunum. „Honum var boðinn starfslokasamningur því þetta gekk ekki lengur,“ staðfestir Sigríður. Aðspurð kvaðst hún ekki vilja tjá sig neitt frekar um aðdraganda starfslokanna.

Þór er að öðru leyti þakkað fyrir störf sín fyrir sveitarfélagið og óskað velfarnaðar í framtíðinni í tilkynningunni. Hann birti sjálfur yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hann sagðist hafa komist að samkomulagi við sveitarstjórn um starfslok þar sem hann þakkar jafnframt fyrir tímann á Vopnafirði.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar hafa starfslokin átt sér nokkuð langan aðdraganda og koma ekki mjög á óvart þeim sem fylgst hafa með sveitarstjórnarmálum á Vopnafirði. Benda má á harðvítugar deilur um uppgjör lífeyrissjóðsskuldar í fyrra við starfsmenn Vopnafjarðarhrepps hjá lífeyrissjóðnum Stapa reyndust erfiðar. Á íbúafundi um málið síðasta dag septembermánaðar mátti greina skil milli sveitarstjórnar og sveitarstjóra í því máli, eins og getið var í frétt Austurfréttar frá fundinum. Það mun þó ekki hafa verið eina kornið í mælinum.

Síðasti fundur Þórs sem sveitarstjóra var á fimmtudag. Fyrir þeim fundi lágu tvö mál, annars vegar tilboð í nýja heimasíðu hreppsins, hins vegar stefnumörkun lögreglunnar á Austurlandi. Sveitarstjórn hefur ekki staðfest starfslokasamninginn formlega en hún fundar næsta fimmtudag.

Sara Elísabet Svansdóttir, skrifstofustjóri og staðgengill sveitarstjóra mun sinna störfum sveitarstjóra uns nýr verður ráðinn. „Hún gerir það með okkar góða fólki á skrifstofunni,“ segir Sigríður.

Aðspurð segir Sigríður að ekki hafi verið ákveðið hvaða aðferð verði viðhöfð við leit að nýjum framkvæmdastjóra sveitarfélagsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.