Orkumálinn 2024

Svandís Svavarsdóttir: Þurfum að styrkja heilbrigðiskerfið varanlega

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, gerði tvær breytingar á þeim tillögum sem sóttvarnalæknir setti fram um samkomutakmarkanir. Auka bólusetningar eru í bígerð.

„Ég gerði tvær breytingar frá minnisblaði sóttvarnalæknis. Annars vegar að gestir í erfidrykkju verði 200 í stað 100 og almenn fjarlægðarregla verði einn metri. Ég taldi þetta rétt til að auka skýrleika,“ sagði Svandís að loknum ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum þar sem reglurnar voru ákveðnar.

„Það er alltaf dásamlegt að vera eystra og í Valaskjálf en ég hefði gjarnan viljað að tilefnið væri annað en ríkisstjórnarfundur. Við hefðum auðvitað frekar viljað vera úti í sólinni en fundurinn gekk vel og við komumst að sameiginlegri og öruggri niðurstöðu,“ sagði hún um fundinn en Svandís hafði verið í fríi eystra síðustu daga.

Einna mikilvægasta reglubreytingin snýr að því að að hámarki mega 200 gestir koma saman í einu sóttvarnahólfi. Reglurnar taka gildi á miðnætti annað kvöld. Hátíðahaldarar Bræðslunnar á Borgarfirði ætla að halda hátíðina en Frönskum dögum verið slitið klukkan 17:00 á morgun.

„Fram að miðnætti eru engar takmarkanir í gildi en þegar að því kemur þurfa hátíðahaldarar að huga að þessari 200 manna reglu,“ svaraði Svandís aðspurð um áhrif á hátíðir eins og þessar tvær eystra.

Í reglunum er að finna undanþáguákvæði, sem rekstraraðilar geta látið reyna á, eins og verið hefur. Á fundinum í dag var einnig rætt um hraðpróf sem geta á kortéri sýnt hvort einstaklingur sé með Covid-19 veiruna.

„Þessi undanþáguheimild hefur alltaf verið í reglunum. Rekstraraðilar eða aðrir geta sótt um undanþágu og út frá umsögn sóttvarnalæknis og eftir atvikum almannavarna á hverjum stað er metið hversu vel er hægt að uppfylla sóttvarnaráðstafanir. Hraðprófin eru einn af þessum þáttum sem þarf að taka til skoðunar þegar fjallað er um mögulegar undanþágur. Rekstraraðilar þurfa sjálfir að stilla öllu upp og svo er kannað hvort umsóknin dugi.“

Þarf að ræða langtímaráðstafanir

Á fundinum í dag var rætt um að til frambúðar þyrfti að vera skýrt hverjar takmarkanirnar værum. „Við ræddum að við þurfum að fara ítarlega yfir hvernig bólusett Ísland er með Covid í gangi í heiminum. Delta afbrigðið smýgur meira framhjá bólusetningum en við hefðum viljað sjá.

Við þurfum að meta hvort við þurfum að vera með einhverjar ráðstafanir hér innanlands og hvað við verðum með á landamærunum til lengri tíma.

Síðast en ekki síst þurfum við að styrkja heilbrigðiskerfið. Það mæðir mest á því í svona faraldri með sýnatöku og smitrakningu en ekki síður Covid-göngudeildinni og umönnun þeirra veikustu. Það getur ekki verið átaksverkefni heldur verðum við að styrkja kerfið til lengri tíma.“

Eins og Svandís bendir á virðast bóluefnin halda verr gegn Delta-afbrigðinu en öðrum útgáfum Covid-veirunnar. Sérstaklega hefur verið horft til þess að þeir sem fengu bóluefni Janssen fái annan umgang af bóluefni, en upphaflega var álitið að einn skammtur af því dygði.

„Sóttvarnarlæknir hefur þetta á sínu borði. Hann hefur tjáð mér að hann sé að undirbúa aðra bólusetningu hjá þeim sem fengu Janssen og mögulega þá þriðju fyrir viðkvæma hópa sem fengu Pfizer.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.