Sundlaugin á Egilsstöðum lokuð í viku vegna framkvæmda

Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum verður lokuð gestum að einhverju leyti alveg fram á næsta mánudag vegna framkvæmda og viðhalds.

Þar er um að ræða íþróttasalinn, líkamsræktarstöðina Héraðsþrek og sundlaugina sjálfa en reglan hefur verið að loka miðstöðinni snemmsumars til viðhalds. Slíkt tekur stundum ekki lengri tíma en einhverjar klukkustundir en að þessu sinni þarf meðal annars að skipta um dúk í barnalauginni og þar sem hún er beintengd aðallauginni þarf að loka þar fram á næsta mánudag.

Guðmundur Birkir Jóhannsson, forstöðumaður, segir að ekki sé útilokað að sundlaugin opni fyrr en á mánudag en betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig en lofa upp í ermi.

„Þar sem við erum að endurnýja dúkinn í barnalauginni þá má auðvitað ekki vera neitt vatn í lauginni og hún er samtengd stóru lauginni þannig að það ræður tímanum sem þetta tekur. Við erum að auglýsa að laugin opni að nýju næstu mánudag en hugsanlega getum við opnað hana fyrr en það. En þar sem ekki er hægt að segja alveg til um það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.“

Hafist var handa eftir hádegi í dag að tæma laugarnar en Guðmundur segir að það taki fleiri klukkustundir þar sem kerfið sé komið til ára sinna og sé svifaseint.

„En við ætlum líka, eins og undanfarin ár, að nýta tímann til viðhalds annars staðar í húsinu. Við snúum klefunum við eins og alltaf er gert fyrir sumarvertíðina, við skiptum um öll ljós á göngum og blöndunartækjum í kvennaklefanum sem hafa verið að stríða okkur lengi. Þetta er hús sem er opið alla daga ársins nánast frá hálfsjö á morgnana til tíu, ellefu á kvöldin. Það er bara ekki hægt að gera þetta öðruvísi en að loka. Það er ekki eins og við séum að leika okkur að því að taka vatnið af sundlauginni. En þegar þarf að skipta um dúka eins og á stóru lauginni þá erum við að tala um nokkrar vikur í lokun.“

Gangi áætlanir eftir opna líkamsræktar- og íþróttasalurinn að nýju á föstudaginn kemur og formlega opnun sundlaugarinnar að nýju er klukkan 10 á mánudagsmorgunn.

Endurnýjun á dúk í barnalaug kostar vikulanga lokun sundlaugarinnar. Mynd Austurland.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.