Styrkja starfsfólk til skemmtunar eftir erfiðan tíma

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur ákveðið að veita hverri stofnun sveitarfélagsins fjárheimild sem nemur tíu þúsund krónum á hvert stöðugildi til að gera eitthvað skemmtilegt með starfsfólki sínu. Fjárveitingin er hugsuð sem þakklætisvottur til starfsfólks fyrir góða vinnu þess í Covid-19 faraldrinum.

Bæjarstjórn samþykkti fjárveitinguna, sem nemur alls um fimm miljónum króna á fundi sínum fyrir helgi. Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, sendi forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins og sviðsstjórum í dag erindi með nánari útfærslu.

Þeir munu síðan ásamt sínu fólki ákveða hvernig féð verður nýtt en ætlast er til að það sé nýtt til kaupa á þjónustu nú í byrjun sumars sem veiti starfsfólki tilbreytingu og efli þannig liðsheild og starfanda.

„Þetta er búinn að vera erfiður tími. Það hefur verið mikið álag og maður finnur á fólki að það er þreytt. Þetta er tilraun og tækifæri til að gera eitthvað fyrir fólkið og þakka því þannig fyrir en um leið að efla andann á hverjum vinnustað fyrir sig,“ segir Karl Óttar.

Í bókun bæjarstjórnar segir að með þessu sé verið að þakka starfsmönnum fyrir „ómetanlegt framlag, gott samstarf og ábyrgð í störfum sínum“ á sérstökum og erfiðum tímum.

Karl Óttar segir að starfsfólk, meðal annars í skólum og félagsþjónustu, hafi lagt á sig mikla vinnu til að halda uppi óbreyttri þjónustu samkvæmt kröfum um smitvarnir. „Það gerðist ekkert af sjálfu sér heldur þurfti fórnfúsa vinnu starfsfólk til að þetta gengi áfallalaust fyrir sig. Þetta tímabil gekk mjög vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.