Stýra U-710 með Xbox fjarstýringu

Neðansjávardróni frá björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði er meðal þeirra tækja sem nýtt eru til leitar að manni sem talinn er hafa fallið frá borði á fiskiskipi á leið þess til hafnar á Vopnafirði í gær. Dróninn getur kafað niður á allt að 150 metra dýpi.

„Við erum uppi í bát með 150 metra kapal í græjuna, horfum á iPad, notum Xbox fjarstýringu til að stýra, sveimum yfir botninum og siglum eftir kompás. Framan á honum er myndavél og ljós.

Við komum honum niður á 150 metra dýpi, kapallinn nær ekki lengra,“ segir Birkir Friðriksson, félagi í Ísólfi og neðansjávardrónastjóri.

Birkir er meðal þeirra sem tekið hafa þátt í leitinni í morgun. „Við vorum með hann á 82 metra dýpi í morgun. Botninn hér er tiltölulega sléttur og skyggnið gott. Dróninn virkar ágætlega við þessar aðstæður. Rafhleðslan endist í klukkutíma. Fyrsti klukkutíminn er yfirleitt erfiðastur, hann fer í að finna taktinn,“ útskýrir hann.

Neðansjávardróninn hefur verið í eigu Ísólfs í um 1,5 ár. Hann hefur einu sinni áður verið nýttur til leitar að fólki, í Þingvallavatni í fyrra sumar.

Hann hefur einnig verið nýttur í þjónustuverkefni, svo sem skoða botna á bátum. „Norðfirðingar komu með Hafbjörgina til Seyðisfjarðar í fyrra og fengu hnúfubak í skrúfuna í miðjum firðinum. Við fengum verkefni þar,“ segir Birkir.

Dróninn er merktur með númerinu U-710. U-ið vísar til kafbáta en 710 er póstnúmer Seyðisfjarðar. „Við settum þetta á í gríni. Svo kom í ljós að U-710 var kafbátur sem sökkt var við Íslandsstrendur í seinna stríði.“

Birkir og Davíð Kristinsson, varaformaður Ísólfs, með neðansjávardrónann U-710, sem einnig gengur undir nafninu Djúphildur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.