Styddu ekki þriðja orkupakkann ef líkur væru á því sem verstu spámenn spá

Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis hafnar því að Íslendingar gefi eftir forræði yfir orkuauðlindum með innleiðingu þriðja orkupakkans. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja enga innleiðingu Evrópureglugerðar hafa verið skoðaða jafn ítarlega.

Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi flokksins á Egilsstöðum fyrir skemmstu þar sem fjórir þingmenn sátu fyrir svörum og höfðu framsögur.

Umræðum var frestað á Alþingi um málið í vor eftir málþóf. Þing kemur aftur saman á morgun til að ræða málið en gert er ráð fyrir atkvæðagreiðslu á mánudag. Málið hefur verið ríkisstjórnarflokkunum erfitt og óánægður félagar í Sjálfstæðisflokknum meðal annars sett af stað undirskriftasöfnun. Því var eðlilegt að stærstur hluti fundarins á Egilsstöðum færi í að ræða orkupakkann.

Engin kvöð um sæstreng

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunarráðherra og dómsmálaráðherra sagði ekki síst skipta máli að koma til leiðar hvað fælist ekki í orkupakkanum. Ekki væri um valdaframsal til alþjóðastofnana að ræða, ekkert sem sjálfkrafa hækkaði orkuverð né ríkari skyldu um að leggja sæstreng.

Sæstrengur hafi aldrei verið á dagskrá þingsins, en þess vegna verið lögð fram tvö frumvörp á þingi nú til að tryggja aðkomu Alþingis ef hugmyndir um sæstreng nálguðust einhvern tíman að komast af hugmyndastiginu.

Þórdís Kolbrún lýsti miklum efasemdum um að sæstrengur sem flytti raforku milli Íslands og meginlands Evrópu yrði nokkurn tíman að veruleika. „Við erum enn að berjast við að koma raforku millilandshluta, hvað þá 1000 MW milli landa,“ sagði Þórdís.

Hún benti einnig á að fyrri athuganir á hakvæmni sæstrengs hefðu verið afar neikvæðar. Þá dygði öll sú raforka sem Íslendingar framleiða aðeins til að rafmagna eina borg í Bretlandi. „Ég hef ekki trú á sæstreng.“

Mikið þegar innleitt

Þórdís Kolbrún kvaðst ekki lýsa orkupakkanum sem „tímalausri snilld“ en hann fæli í sér hluti eins og aukið sjálfstæði Orkustofnunar og neytendavernd með meiri kröfu um upplýsingagjöf. Hluti orkupakkans hefði verði innleiddur árið 2015 með kerfisáætlunum raforku.

Hún sagði málinu hafa verið frestað nokkrum sinnum því margir hefðu haft áhyggjur af því hvað innleiðing þriðja orkupakkans gæti haft í för með sér til að kanna málin frekar. Nú væri staðan sú að enginn innleiðing Evrópulöggjafar hérlendis hefði verið skoðuð jafn ítarlega. „Ég væri aldrei að styðja þetta mál ef líkur væru á að það færi eins og verstu spámenn hafa haldið fram,“ sagði hún.

Yfirráðarétturinn yfir orkuauðlindunum helgasti réttur Íslendinga

Fleiri þingmenn flokksins töluðu á svipuðum nótum. „Af hverju haldið þið að við séum að innleiða mál sem taki af Íslendingum forræði yfir orkuauðlindunum? Það er bull. Yfirráð yfir þeim er okkar helgasti réttur. Það er enginn í þingflokknum sem vinnur með þá hugsun að skerða þau,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis. Hann bætti því við að orkupakkinn hefði farið smurt í gegnum norska þingið. Það hefði ekki gerst ef minnstu líkur væru á að Norðmenn afsöluðu sér yfirráðum yfir olíuauðlindum sínum.

Spurningar fundargesta gengu á miklu leyti út á hvort fyrirvarar Íslendingar við innleiðingu orkupakkans myndu halda þegar á reyndi þegar fram liðu tímar. Njáll Trausti Friðbergsson, hinn þingmaður flokksins í kjördæminu, kvaðst skilja efasemdir almennra flokksmenna. Hann hefði verið sama sinnis fyrir einu og hálfu ári og farið fram á að málið væri skoðað, sem og hefði verið gert. Hann sagði jákvæðast við umræðuna að rætt væri um orkumál, þau væru risamál fyrir framtíðina. Sæstrengur kæmi orkupakkanum þó ekkert við. Að auki minnkuðu líkur á honum stöðugt þar sem sífellt væri hagkvæmara að framleiða rafmagn með vindorku.

Mikilvægt að íslenskar reglur séu sterkar

Sigríður Á. Andersen, þingmaður úr Reykjavík, sagðist fagna umræðu um flokksstarfið í tengslum við orkupakkann, hún sýndi að líf væri í starfinu. Hún sagði einnig að orkupakkamálið væri dæmi um að hlustað væri á flokksfélaga því málið hefði verið tilbúin til atkvæðagreiðslu í þinginu fyrir ári.

Hún sagði þriðja orkupakkann ekki stórmál í sjálfu sér, þegar væri búið að innleiða helstu ákvæði hans, en sjónarmiðin sem teflt væru fram í málinu mikilvæg. Til dæmis þróuðust reglur Evrópusambandsins stöðugt og til væru orðnar stofnanir sem voru ekki fyrir hendi þegar Íslendingar undirrituðu sáttmálann um Evrópska efnahagssvæðið.

Sigríður kvaðst vonast til þess að umræðan dytti ekki niður dauð því fleiri mál ættu eftir að koma frá Evrópusambandinu sem Íslendingar þyrftu að takast á við. Nauðsynlegt væri að einbeita sér að stóru málunum og stöðva þau í fæðingu eða tryggja undanþágur. Þá yrðu að vera til lög hérlendis þannig íslensk stjórnvöld gætu gripið í taumana ef gerðir samningar yrðu endur- eða mistúlkaðir gegn ríkinu.

Hún sagðist þó ekki treysta sér til að fullyrða um hvaða fyrirvarar héldu og hverjir ekki. „Ég þekki það manna best að maður veit ekki hvernig dómar falla.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.