Stuðningur frá KEA forsenda sameiningarviðræðna sparisjóða

Vilji KEA til að leggja mögulegum sameinuðum sparisjóði til viðbótar eigið fé varð kveikjan að formlegum sameiningarviðræðum Sparisjóðs Austurlands og Sparisjóðs Höfðhverfinga. Stjórnarformaður Sparisjóðs Austurlands telur að sameiningin efli alla sparisjóðsstarfsemi landsins ef hún gengur í gegn.

Tilkynnt var á þriðjudag um að stjórnir sjóðanna tveggja hefðu ákveðið að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Þar var talað um vonir um að sameinaður sjóður gæti stækkað og sótt fram með betri þjónustu meðal annars því KEA er tilbúið að leggja til eigið fé.

„Frumkvæðið að þessu kemur að norðan því KEA er tilbúið að koma að málum með þessum hætti. Sparisjóðirnir eru margir litlir en lítill tilgangur til að sameina nema úr verði styrking og til þess að svo megi verða þarf þetta framlag.

Þetta eru hvort tveggja einingar sem hafa gengið vel og vaxið og dafnað jafnt og þétt. En til að stækka til lengri tíma þarf meira til,“ segir Jón Einar Marteinsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Austurlands.

Í dag eru fjórir sparisjóðir í landinu, auk þeirra tveggja sem ræða saman Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Jón Einar segir stjórnendur þeirra sjóða vita af viðræðunum en ekkert hafi verið rætt um hvort þeir blandist inn í þær eða hvort aðrir fjárfettar en KEA komi að nýjum sjóði. „Ég held að stærri sparisjóður styrki alla hina en það er ekkert meira á borðinu enn.“

Jón Einar segir viðræðurnar enn á byrjunarstigi. Þannig sé enginn tímarammi afmarkaður. „Þetta tekur bara sinn tíma. Við erum að skipuleggja hvernig við vinnum þetta á næstunni.“

Þannig hefur ekki verið ákveðið hvenær aðalfundur Sparisjóðs Austurlands fari fram en hefð er fyrir honum að vori eða snemma sumars. „Við vitum ekki hvort þetta klárist fyrir hann. Við sjáum bara hvernig gengur.“

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.