Stríðið milli landsbyggðar og Reykjavíkur aldrei verið harðara

flug_flugfelagislands_egsflugv.jpg

Austfirskir sveitarstjórnarmenn hafa miklar áhyggjur af framtíð Reykjavíkurflugvallar og áformum borgaryfirvalda um að færa völlinn eða loka hluta hans. Ekki gangi að staðsetning hans sé háð geðþóttaákvörðunum borgarfulltrúa hverju sinni.

 

„Ég held að stríðið milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkursvæðisins hafi aldrei verið jafn slæmt og hallað jafn mikið á landsbyggðina og nú. Það er allt að sogast til Reykjavíkur. Ef þetta heldur svona áfram förum við að lýsa yfir sjálfstæði – og ég er ekki að grínast. Það er algjörlega óþolandi að vita að við erum að niðurgreiða hina og þessa þjónustu í Reykjavík,“ sagði Sævar Guðjónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð við umræður um Reykjavíkurflugvöll á bæjarstjórnarfundi í vetur.

„Það gengur ekki að misgáfulegir borgarfulltrúar hafi með það að gera hvort þetta sé flugvöllur alls landsins eða ekki. Það getur ekki gengið að það sé háð því hvenær borgarstjórnarfundir eru hvort flugvöllurinn fer eða ekki.“

Þarf að endurskoða opinbera þjónustu ef flugvöllurinn fer

Orð Sævars enduróma skoðanir fleiri sveitarstjórnarfulltrúa og íbúa á Austurlandi sem flestir hafa barist hatrammlega gegn hvers konar hugmyndum um flutning miðstöðvar innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni í Reykjavík. Nýjustu hugmyndirnar voru þær að láta loka norður-suðurbrautinni árið 2016 sem myndi í raun gera flugvöllinn ónothæfan til farþegaflugs.

„Ríkið á að taka þetta svæði yfir svo við vitum hvar við stöndum. Ég er orðinn þreyttur á að það velti á hvernig liggi á borgarfulltrúum í Reykjavík þegar þeir vakna hvar hann á að vera. Það skiptir miklu máli hvort hann er í miðborginni, í Keflavík eða guð má vita hvar. Það þarf að endurskoða opinbera þjónustu ef flugvöllurinn fer,“ sagði Elvar Jónsson frá Fjarðalistanum.

„Stundum er eins og þeir sem sýsla með stjórnsýslu í Reykjavík hafi enga hugmynd um hvaðan þetta fólk kemur sem mætir á fundina í Reykjavík. Fundartímar skipta okkur miklu máli fjárhagslega, ef það þarf að senda mann, láta hann gista á hóteli og greiða honum dagpeninga þannig hann geti mætt á réttum tíma.

Á sama tíma og verið er að reyna að koma flugvellinum úr borginni sækjast borgir í Evrópu eftir því að efla minni þjónustuvelli innan sinna borgarmarka.“

Aðstöðuleysi kemur í veg fyrir samkeppni

Staðsetningin er ekki það eina. Flugstöðin í Vatnsmýrinni þykir löngu úrelt. Teikningar eru til en málið strandar á borgaryfirvöldum, segir Valdimar O. Hermannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.
 
„Sem formaður SSA hef ég séð teikningar að nýrri flugstöð sem væri jafnvel færanleg ef svo bæri undir. Málið strandar meðal annars á borgaryfirvöldum. Þau eru upptekin við annað og sýna málinu engan áhuga.“

Aðstöðuleysið stuðlar að fákeppni á markaðinum, að mati Elvars. „Borgaryfirvöld halda flugvallarmálinu í gíslingu. Flugstöðin er löngu úrelt, í eigu eins flugfélags og önnur komast ekki með góðu móti inn á markaðinn.“

Keflavík gengur ekki

Fleiri sveitarstjórnir styðja þetta álit. Í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs er vísað til málþings sem haldið var í Háskólanum um Reykjavík þar sem fram hafi komið að ekki væri raunhæft að breyta núverandi legu flugbrauta eða finna vellinum annan stað á höfuðborgarsvæðinu. 

„Eini valkostur við núverandi staðsetningu er flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur sem myndi valda óásættanlegri þjónustuskerðingu fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs minnir borgarstjórn Reykjavíkur á að sem höfuðborg hefur Reykjavík ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim sem búa út um landið og hvetur borgarstjórn að líta á flugvöllinn sem tækifæri til að standa undir hlutverki höfuðborgar með sóma.“

Fljótsdalshérað samþykkti að taka þátt í vinnu skýrslu, sem nokkur landsbyggðarsveitarfélög standa að, um áhrif á íbúa og fyrirtæki á landsbyggðinni verði Reykjavíkurflugvöllur lagður af í núverandi mynd.

Reykjavík afsalar sér höfuðborgartitlinum

Svipaður tónn er í bókun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi: „Verði miðstöð innanlandsflugsins flutt til Keflavíkur mun ferðatími verða svo langur og ferðakostnaður það mikill að óásættanlegt væri að sækja opinbera þjónustu með sama hætti og nú er gert til Reykjavíkur."

Bent er á að verði flugvöllurinn færður þurfi að efla og jafnvel byggja upp frá grunni opinbera þjónustu á landsbyggðinni. 
 
„Ljóst er að gangi framangreind áform eftir, mun Reykjavíkurborg þar með afsala sér hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.Þar sem fjögur ár eru skammur tími til undirbúnings fyrir slíkar breytingar vill SSA fara fram á að stjórnvöld hefjist nú þegar handa við undirbúning þeirra breytinga á stjórnsýslu og opinberri þjónustu sem lokun flugvallarins krefst.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.