Orkumálinn 2024

Stórhólskindur suður í Hornafjörð

Þær 160 kindur sem teknar voru úr vörslu ábúenda á Stórhóli í Álftafirði fyrir viku eru á leið suður í Hornafjörð. Samkvæmt heimildum agl.is hefur fjárbóndi þar keypt kindurnar. Þetta varð lausn málsins að loknum fjögurra daga andmælafresti ábúenda sem rann út á mánudag.

 

ImageÞar með er orðið ljóst að kindurnar fara hvorki aftur í Stórhól né í sláturhús, sem var önnur möguleg lausn. Samkvæmt heimildum agl.is hefur svæðið í kringum Stórhól verið smalað undanfarna daga og á þriðja hundrað kinda komið af fjalli.

Þegar talið var í fjárhúsunum á Stórhóli og Geithellum í Álftafirði, sem heyra undir sömu ábúendur, upp úr miðjum janúarmánuði voru þar 1.142 kindur. Þegar lögreglan tók kindurnar 160 í seinustu viku voru 820 skyldar eftir, sá fjöldi sem húsakosturinn var talinn ráða við. Matvælastofnun fór fram á vörslusviptinguna eftir talninguna.

Samkvæmt þeim tölum hefði þurft að vörslusvipta 320 kindur úr höndum ábúenda. Heimildarmenn agl.is segja ekki ljóst hvort þær kindur, sem nú hefur verið smalað, hafi þá verið sendar á fjall eða séu umfram janúartöluna. Margir telja samt að þá hafi á annað hundrað verið á fjalli.

Eftirliti með úrbótum á húsakosti og fóðrun verður haldið áfram á Stórhóli. Það verður samt ekki í höndum búfjáreftirlitsmanna úr hreppnum sem fyrr í vetur sögðu sig frá eftirliti á bænum þar sem ábúendur hefðu dregið heilindi þeirra í efa og afskipti og athugasemdir þeirra árum saman reynst árangurslaus.

Seinasta sumar samþykkti sveitarstjórn Djúpavogshrepps að svipta ábúendur á Stóhóli leyfi til búfjárhalds. Því hefur ekki verið fylgt eftir af fullri hörku. Eftir því sem agl.is kemst næst hefur lagagrunnurinn þótt veikur auk þess sem í búfjárlögum segir að „verði búfjáreigandi fyrir atvinnutjóni vegna banns eða takmarkana á búfjárhaldi,“ sé sveitasjóður bótaskyldur hafi sveitastjórn bannað búfjárhald á ákveðnu svæði eftir eigin samþykkt, eins og er til staðar í Djúpavogshreppi.
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.