Strandveiðar aldrei verið stöðvaðar jafn snemma
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. júl 2023 11:54 • Uppfært 12. júl 2023 11:58
Strandveiðum ársins var á hætt miðnætti eftir að klárað var að veiða kvóta ársins. Þeim hefur aldrei lokið jafn snemma. Slíkt kemur illa við strandveiðimenn á Norður- og Austurlandi þar sem stærsti og verðmætasti fiskurinn gengur síðar inn á það svæði. Formaður smábátaeiganda á Austurlandi segir landssvæðið og jafnvel þjóðarbúið verða af miklum verðmætum með núverandi fyrirkomulagi.
„Það var nokkuð góður fiskur og fín veiði hér á suðurhlutanum en eins og þekkt er þá var smáfiskur fyrir norðan,“ segir Guðlaugur Birgisson, formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi um hvernig strandveiðarnar hafi almennt gengið í sumar en bætir við að hljóðið sé þungt í mönnum vegna stöðvunarinnar. „Menn eru miður sín.“
Í ár var leyft að veiða 10.000 tonn af þorski og í gær var gefið út að kvótinn væri að klárast þannig að veiðum yrði hætt á miðnætti. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Fiskistofu voru á svæði C, sem í grófum dráttum nær frá Skjálfanda að Hvalnesi, veiddust þar 1.224 tonn af þorski. Það er minnst af svæðunum fjórum, til samanburðar þá veiddust 5.461 tonn á svæði A, Vesturlandi.
Strandveiðar 2022 stóðu tíu dögum lengur. Árið 2021 kláraðist kvótinn um miðjan ágúst en þá var bætt við þannig hægt var að veiða út mánuðinn.
Austurland verður af verðmætum
Landinu er skipt upp í fjögur veiðisvæði. Samkvæmt reglum má bátur með leyfi til strandveiða á einu svæði ekki landa á öðru svæði. Fram til ársins 2019 var kvótinn líka skilyrtur við svæðin. Þróunin síðan hefur verið sú að aflinn og þar með bátarnir hafa flust einkum á svæði A.
Smábátasjómenn á Austurlandi hafa undanfarin ár gagnrýnt kerfið og þrýst á um að einhvers konar svæðaskipting verði tekin upp aftur. Síðasta vetur lagði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, fram frumvarp í þá átt. Það hlaut fjölda athugasemda í samráðsferli og fór í raun aldrei lengra.
„Matvælaráðherra hefur sýnt málstað okkar skilning og lagði fram frumvarp sem svo sofnaði. Við vonum að hún haldi því til streitu að koma á svæðaskiptingunni því meðan hún er til staðar þá fækkar bátunum áfram hér fyrir austan.
Þegar kerfið var sett á þá voru veiðiheimildum úthlutað á svæðin eftir félagslegum viðmiðum, svo sem ástandi í fiskvinnslu og atvinnulífi. Þá fékk svæði C um 2.000 tonn en við veiðum rúmlega 1.000 núna.
Síðan hvarf einhvern vegin áherslan á félagslega hlutann. Það er hægt að færa rök fyrir því að kvótakerfi sé sett upp til að veiða fiskinn þar sem það er hagkvæmast. Það að veiðarnar byrji 1. maí þýðir að allir eru skikkaðir til að sækja fiskinn meðan það er óhagkvæmast á norðursvæðinu. Á móti kemur að það er hægt að segja að það væri langbest að veiða síðar þegar fiskurinn er orðinn stór fyrir norðan land. Ég hef aldrei séð jafn stóran og flottan fisk og þar. Þá er hins vegar minni fiskur á svæði A.
Við höfum séð útreikninga upp á að fyrirkomulagið nú þýði að hundruð milljóna króna tapast í aflaverðmæti frá Austurlandi. Tilfærsla aflans jafngildir því að ein stór útgerð hafi flutt í burtu,“ segir Guðlaugur.
Vilja 48 veiðidaga
Hann segir það vera orðna sameiginlega kröfu strandveiðimanna að hverjum verði tryggður ákveðinn fjöldi veiðidaga. „Við erum ekki að tala um að fá að veiða meira, heldur að geta ráðið hvenær við veiðum. Það myndi henta okkur betur að byrja síðar. Það er samstaða meðal smábátasjómanna að allir fái 48 daga til að spila úr. Vera má að svæði A sé það gjöfulasta en ef kerfið á að styrkja byggð þá verður að halda í svæðaskiptinguna, bæði á löndunum og kvóta.“
Undanfarnar vikur hafa hagsmunasamtök smábátasjómanna á landsvísu þrýst á ráðherra um að auka strandveiðikvótann. Því neitaði ráðherra. Áfram er þrýst á ráðherra og boðað hefur verið til mótmæla í Reykjavík á laugardag. Guðlaugur telur þó að lítið breytist í bili.
„Það var vonast til að reynt yrði að bæta við kvóta en fyrir því reyndist takmarkaður áhugi þótt það sé hægt að sýna því skilning að erfitt sé að finna kvóta til að bæta við.
Fiskistofa hefur verið með skiptimarkað þangað sem 5,3% allra kvótabundinna tegunda kemur. Það hefur sáralitlu skilað. Árið 2021 fóru þar um 53.000 tonn sem skiluðu okkur 3.500 tonnum. Það sést að skiptingin er skökk. Við höfum bent á að þar sé miklum verðmætum skipt fyrir lítið en það virðist enginn áhugi á að sækja meira í það.
Við skiljum reglurnar þannig að þeir bátar sem hafa veiðileyfi geti strax haldið til annarra veiða. Það er hins vegar erfitt því það er ekkert framboð á þorskkvóta til leigu.“
Leggur til frjálsar veiðar á ufsa
Alls veiddust 1.309 tonn samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu fyrir Svæði C. Sem fyrr segir var mest af þorski en einnig 5,3 tonn af gullkarfa og 19,7 tonn af ufsa. Á svæðinu höfðu 107 bátar leyfi til strandveiða en 104 lönduðu.
Guðlaugur segir að frjálsar veiðar smábáta á ufsa sé eitt af því sem hægt sé að gera til að efla greinina. „Sá stofn er vannýttur af öllum, á hverju ári er talsverður afgangur af kvótanum. Ég hefði viljað að krókaaflamarksbátarnir fengju frelsi til að sækja í þann stofn. Það er flottur og verðmætur fiskur sem er gaman að veiða.“