„Strákum líður illa og kunna ekki að biðja um hjálp“

„Einn daginn vöknuðum við upp við vondan draum. Allt í kring um okkur voru strákar, vinir okkar og kunningjar í blóma lífsins að deyja,“ segir Viktor Sigurjónsson, leikstjóri og framleiðandi stuttmyndarinnar Lífið á eyjunni sem tekin verður upp á Seyðisfirði í vikunni og er ætlað að vekja athygli á geðheilsu ungra drengja.


Viktor og félagi hans Atli Óskar Fjalarsson hafa unnið markvisst að gerð myndarinnar í rúma átta mánuði. Myndin fjallar um Braga sem er 12 ára klár strákur en virðist ekki getað fótað sig í föstum umgjörðum samfélagsins. Hann á erfitt með nám og er í raun félagslega einangraður. Hann uppgötvar svo það afl sem tónlistin hefur að geyma þegar hann smíðar sér trommusett úr gömlum málningarfötum og byggingarefni.

„Við viljum leggja okkar að mörkum“
„Sagan snertir á mörgum mikilvægum málefnum líkt og geðheilsu, vináttu drengja og félagslegri einangrun svo eitthvað sé nefnt. Ástandið er hið sama í öllum krikum samfélagsins, hvort sem það er í stórborgum eða litlum bæjum. Strákum líður illa og kunna ekki að biðja um hjálp.

Við höfum báðir lengi verið meðvitaðir um vandann, en umfang hans er svo gríðarlegt að við höfum upplifað okkur vanmáttuga gegn honum og liðið eins og eitthvað framlag frá okkur væri eins og að skvetta vatnsglasi á eldgos.

Við kynntumst á kvikmyndasetti í fyrra og þegar við fórum að ræða þessi mál kom fljótlega í ljós mikill samhugur og metnaður fyrir einhvers konar átaki. Ég hafði þá verið að vinna að handritinu um nokkurt skeið og Atli hafði komið af stað hóp þar sem strákar gátu talað opinskátt um tilfinningar sínar. Við ákváðum því að leiða saman hesta okkur og nú rúmu hálfu ári síðar er þessi mynd að verða að veruleika. Planið er að sýna myndina í skólum og fylgja henni eftir með umræðu og málþingum, en við viljum leggja okkar af mörkum til að hjálpa vinum, bræðrum, frændum og feðrum í neyð.“

„Við bara elskum Seyðisfjörð“
Tökutímabilið er átta dagar og verður öll myndin tekin upp á Seyðisfirði. Af hverju varð Seyðisfjörður fyrir valinu? „Fyrst og fremst er bærinn alveg ótrúlega fallegur. Við skoðuðum allskonar staði en mig langaði alltaf að gera myndina í einhverjum firði og þessi háu og bröttu fjöll ramma söguna og málefnið vel inn. Það er líka ákveðið tímaleysi fólgið í því að vera með fjöllin og sjóinn sem sögusviðið, maður finnur vel fyrir smæð sinni í því samhengi, með þessi óhreyfanlegu öfl í kringum sig. Ekki skemmir svo fyrir að Seyðisfjörður er mjög listatengdur bær, andrúmsloftið á staðnum er einstakt og íbúar hafa tekið okkur opnum örmum og eru til í að aðstoða okkur, en það seldi okkur hugmyndina endanlega. Við bara elskum Seyðisfjörð, það er bara ekki hægt annað.“

Verkefnið unnið í samstarfi við fjölmarga aðila
Viktor og Atli vinna verkefið í samstarfi við minningarsjóð Einars Darra (Óskarssonar) en hann var aðeins 18 ára þegar hann lést á heimili sínu í vor eftir neyslu róandi lyfja. Fjölskylda hans sendi frá sér forvarnarmyndbandið Ég á bara eitt líf sem hefur vakið mikla athygli.

„Við erum einnig í samstarfi við ADHD-samtökin, Allir gráta og danskan kvikmyndasjóð. Kukl tækjaleiga hefur einnig stutt okkur sem og Seyðisfjarðarbær. Við vorum svo á fundi í Velferðarráðuneytinu í vikunni þar sem vel var tekið í erindi okkar og það verður vonandi næsti samstarfsaðili. Auk þess vonumst við til þess að fá Mennta- og menningarmálaráðuneytið til liðs við okkur.“

Aukaleikarar óskast á þriðjudaginn
Aukaleikarar óskast til þess að taka þátt í einu atriði myndarinnar á þriðjudaginn. „Þá tökum við upp sumarhátíð og vantar sárlega fullt af fólki til þess að vera áhorfendur á hátíðinni,“ en nánari upplýsingar fást hjá Magneu Helgadóttur í síma 6208251 eða gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar