„Stóru samgönguverkefnin grundvöllur að framtíð Austurlands“

Byrjað verður á framkvæmdum við nýjan Axarveg eftir ár og Fjarðarheiðargöng árið 2022 samkvæmt nýrri samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi í síðustu viku. Þingmaður Norðausturkjördæmis segir samgönguframkvæmdir lykilatriði fyrir byggðaþróun.

„Þessi stóru verkefni eru grundvöllurinn að framtíð Austurlands. Samgöngur hafa mikil áhrif á samfélagsþróun og tækifæri til hennar. Ef ekki er farið í samgönguframkvæmdir fylgir stöðnun,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í kjördæminu og nefndarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Alþingi samþykkti, áður en það fór í sumarfrí í byrjun síðustu viku, fjögur lykilfrumvörp um samgöngumál. Í fyrsta lagi samgönguáætlun til fjögurra ára, til 14 ára, um blandaða fjármögnum samgöngumannvirkja og samkomulag um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Frumvörpin voru lögð fram af samgönguráðherra en unnin í nefndinni á milli umræðna í þinginu.

„Þetta er rosalega góð tilfinning, svipuð og að klára þríþraut. Þetta hefur tekið allan veturinn en við nýttum Covid-tímann vel til að halda áfram og finna leiðir til að ákveða samgönguáætlun án þess að búið væri að ljúka fjármálaáætlun.“

Fjarðarheiðargöng 2022

Framkvæmdir við Axarveg á næsta ári og Fjarðarheiðargöng frá 2022 hafa legið í loftinu í um ár en með þessu er stigið ákveðnara skref að svo verði því mun lengra var í báðar framkvæmdir í eldri samgönguáætlun.

„Auðvitað er enn verið að vinna í rannsóknum og áætlunum. Auðvitað getur alltaf óvænt komið upp í náttúrunni en það er betra að vita það fyrirfram,“ svarar Líneik Anna aðspurð um hvort hægt sé að slá því föstu að byrjað verði á göngunum 2022.

Hringtengingin nauðsynleg

Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar segir að Fjarðarheiðargöngin skili ekki fullum ávinningi nema það verði unnið sem samfelld heild sem skili hringtengingu í fjórðungnum. Því þurfi að halda áfram yfir til Norðfjarðar um Mjóafjörð og athygli vakin athygli á að hægt sé að hefja það verk áður en Fjarðarheiðargöngin verði tilbúin. Nefndin leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við framhaldið ljúki sem fyrst þannig hægt verði að byrja um leið og fjármagn fáist.

Þá leggur nefndin áherslu á að hægt þurfi að vera að vinna að fleiri en einum jarðgöngum í einu. Til þess þurfi að halda áfram rannsóknum. Nokkur möguleg jarðgöng eru nefnd til sögunnar, svo sem undir Lónsheiði og milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs.

Áætlað er að Fjarðarheiðargöngin kosti um 35 milljarða króna, sem er mikið fé í eina framkvæmd. Líneik bendir á að samningurinn um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu skipti miklu máli til að skapa sátt um mikilvægar framkvæmdir á landsbyggðinni. „Það koma upp efasamendaraddir en ég held að höfuðborgarsáttmálinn sé grunnur að sátt og samgönguáætlunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.“

Borgarfjarðarvegur klæddur á næstu tveimur árum

Ýmsar aðrar framkvæmdir eru á dagskránni á næstunni, svo sem enduruppbygging leiðarinnar milli Gilsár og Arnórsstaða á Jökuldal sem 280 milljónir eru veittar til í ár. Þá veitti ríkið fé í valin flýtiverkefni fyrr í vor, meðal annars nýja brú yfir Gilsá á mótum Skriðdals og Valla. Hana á að hanna í ár og byggja á næsta ári, en núverandi brú er einbreið og komin til ára sinna.

Leiðin yfir Vatnsskarð verður kláruð í ár og kaflinn milli Eiða og Laufáss hannaður til klæðningar. Líneik Anna segir markmiðið að sá vegur verði á næstu tveimur árum, en frekari staðfesting á því bíði fjármálaáætlunar sem Alþingi ræðir í haust.

Ekkert útilokað með Suðurfjarðaveg

Mörgum Austfirðingum þykir súrt að Suðurfjarðavegur, frá Reyðarfirði að Breiðdalsvík, er ekki á dagskrá fyrr en á þriðja tímabili samgönguáætlunar 2030-2033. Líneik segir þó ekki útilokað að byrjað verði á honum fyrr. „Það er verkefni sem hægt er að skipta upp í áfanga. Það er byrjað að vinna greiningar á honum,“ segir hún.

Hún bendir á að á að leiðinni séu til dæmis fjórar einbreiðar brýr og að í samgönguáætlun sé að finna fjárheimildir til að fækka einbreiðum brúm án þess að skilgreint sé nákvæmlega hvaða. Sama er að segja um viðhald tengi- og héraðsvega sem fær aukið fjármagn. Þar sé möguleiki á verkefnum á Austurlandi, svo sem fækkun malarkafla.

Með samþykkt samgönguáætlunar er líka staðfest að hefja eigi niðurgreiðslu á innanlandsflugi á þessu ári. Líneik segir unnið í endanlegri útfærslu en útlit sé fyrir að verkefnið verði prufukeyrt í ár þar niðurgreidd verði ein ferð á hvern íbúa fram og til baka milli þeirra svæða sem áður hafa verið skilgreind í umræðunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.