Stóráfallalaust á Austurlandi í gær

Austurland virðist hafa sloppið vel út úr óveðri síðustu daga. Tjón varð þegar brimalda skall á gistiheimili á Borgarfirði en engin tíðindi eru af foktjóni. Raforkukerið virðist heilt þótt rafmagn hafi farið út í nær öllum fjórðungnum í á þriðja klukkutíma.

„Þetta fór miklu betur en það stefndi í. Við höfum ekki heyrt af foktjóni eða öðru slíku,“ segir Sveinn Oddsson Zoëga, í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi.

„Það voru engin stóráföll sem við vitum um,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Veðurspár á þriðjudagskvöld bentu til að aftakaveður yrði um allt Austurlandi í gær. Því voru aðgerðastjórnir almannavarnar virkjaðar og björgunarsveitir ásamt fleirum í viðbragðsstöðu. Vakt var frá því um klukkan fjögur aðfaranótt miðvikudags og framyfir hádegi en veðrið var þá að mestu gengið niður.

Fjallvegum var lokað og segir Sveinn að það hafi átt sinn þátt í að vel gekk í gær. Fleiri útköll hefðu verið ef fólk hefði lagt á fjallvegina. Einn fékk far með mokstursbíl af Fagradal eftir að veðrið skall snarlega á um klukkan sjö í gærmorgunn. Þá var einum ferðalangi bjargað af Fjarðarheiði.

Mesta tjónið á Austurlandi í gær virðist hafa orðið á Borgarfirði eystra þar sem brim skall á gistihúsinu Blábjörgum með þeim afleiðingum að steinar, þang og sjór bárust inn á gólf íbúðar í húsinu og útibaðaðstaða skemmdist.

Rafmagn fór af nær öllu Austurlandi upp úr klukkan tíu í gærkvöldi og var úti í þrjá tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti virðist ekki hafa orðið skaði á flutningskerfi raforku á svæðinu og rekstur þess gengur því nokkuð eðlilega í fjórðungnum.

Á gervöllu Norðurlandi hafa björgunarsveitir og viðgerðaflokkar lagt nótt við nýtan dag vegna gríðarlegs fannfergis sem fylgdi óveðrinu. Þá stendur yfir umfangsmikil leit í Eyjafirði af manni sem féll í á þegar krapastífla brast.

Björgunarsveitafólk víða af landinu hefur haldið norður til aðstoðar við leitina. Sveinn segir að enginn austfirskur björgunarsveitarmaður sé enn farinn en sveitirnar eystra séu í viðbragðsstöðu og verið að fara yfir málin. Engin formleg beiðni um aðstoð hafi þó enn borist, hvorki vegna leitarinnar né fannfergisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.