Stór hluti atvinnuhúsnæðis á hættusvæði C

Yfir 75% af heildarflatarmáli atvinnuhúsnæðis á Seyðisfirði er á hættusvæði C, mesta hættusvæði. Brýnt er fyrir atvinnulífið í bænum að óvissuástandi verði eytt.

Þetta kom fram á íbúafundi um atvinnumál á Seyðisfirði í gærkvöldi. Þar var kynnt samantekt sem RR ráðgjöf vann fyrir sveitarfélagið Múlaþing og Austurbrú um stöðu atvinnumála á Seyðisfirði í kjölfar skriðufallanna þar fyrir tæpu ári.

Tvö andlit Seyðisfjarðar

Samkvæmt staðgreiðslutölum eru opinber þjónusta og fiskvinnsla undirstöður atvinnulífs bæjarins. Meðalfjöldi starfsfólks í opinbera geiranum var 175 manns í fyrra og skatttekjur af þeim 886 milljónir. Við fiskvinnslu störfuðu 63,3 manns sem greiddu 520 milljónir í skatta.

Róbert Ragnarsson, ráðgjafi, sagði Seyðisfjörð hafa tvö andlit. Annars vegar sem lista- og menningarbæ, sem væri ímynd staðarins í dag, en enn væri til staðar eldri mynd hans sem sjávarútvegs- og iðnaðarstaðar.

Hvorugur gæti án hins verið. Þótt störfin hjá hinu opinbera og fiskvinnslunni knýi áfram bæinn felist lífsgæði í hinu. Mikið högg yrði fyrir efnahag staðarins ef önnur hliðin yrði fyrir áfalli. Til dæmis hefðu skattar af starfsmönnum í ferðaþjónustu fallið úr 147 milljónum árið 2019 í 103 í fyrra.

Finna þarf nýtt svæði undir atvinnustarfsemi

Eftir skriðuföllin í fyrra hefur verið mikill skortur á húsnæði í bænum. Áherslan hefur verið á íbúðahúsnæði, þar sem fólk ýmist missti hús sín eða má ekki búa í þeim lengur, en staða atvinnulífsins er heldur ekki góð.

Í dag eru rúm 31% atvinnuhúsnæðis á Seyðisfirði á hættusvæði C, mesta hættusvæðinu. Hlutfall íbúðahúsnæðis eða opinbers húsnæðis er á móti 13-15%. Myndin breytist snarlega þegar flatarmálið er skoðað því tæp 78% af flatarmáli atvinnuhúsnæðis á Seyðisfirði er á hættusvæði C.

Róbert sagði afar brýnt fyrir þróun atvinnulífs á Seyðisfirði að skýr svör fáist um hvað megi gera á C-svæði því óvissa um nýtingu eigna þar dragi verulega úr krafti. Forgangsatriði sé að vinna nýtt aðalskipulega en vinna við það er hafin.

Hann sagði viðmælendur í samantektinni hafa horft til landfyllingar við Lónsleiru sem framtíðar atvinnusvæðis. Þar gæti verið hægt að byggja upp klasa þar sem ólíkar atvinnugreinar, fiskvinnsla, flutningar og ferðaþjónusta gætu stutt hver við aðra.

Verktakabær næstu árin

Í vinnu RR ráðgjafar var dregin upp mynd af hvernig þróunin gæti orðið á Seyðisfirði fram til 2025 og 2030. Líklegt er að staðurinn beri einkenni verktakabæjar fram til 2025, vegna mikilla framkvæmda í ofanflóðavörnum og byggingum. Líkur séu á að verktakarnir komi margir hverjir að en þurfi þjónustu á staðnum. Það gæti hækkað laun og þrengt að einhverjum greinum. Áskorun verði að halda sem mestu af ágóða framkvæmdanna eftir í byggðarlaginu.

Sýnin 2030 var draumkenndari með auðlindagarði á Lónsleiru, háskólasetri, nýjum skóla og nýtingu varnargarða til útivistar, svo dæmi séu nefnd.

Gott umhverfi til nýsköpunar

Á fundinum töluðu einnig Tryggvi Hjaltason, formaður hugverkaráðs og starfsmaður tölvuleikjafyrirtækisins CCP í Vestmannaeyjum og skáldið Bergur Ebbi Benediktsson.

Tryggvi sagði umhverfi til nýsköpunar á Íslandi aldrei hafa verið betri og vera orðið eitt það besta í heimi með stórauknum ríkisstuðningi við hana. Hún felist ekki endilega í byltingakenndum uppfinningum heldur þróun nýrrar eða bættrar vöru, þjónustu eða aðferða. Hann sagði Covid-faraldurinn hafa hraðað hreyfanleika starfa um 10-15 ár og nefndi mikilvægi þess að fá fólk með nýja þekkingu inn í samfélög.

Bergur Ebbi sagði óvíða hægt að sjá skýrar en á Seyðisfirði hvernig Ísland hefði iðnvæðst á skömmum tíma, en fyrsta iðnbyltingin hefði falist í að vélar tóku við af vöðvum. Fjórða iðnbyltingin fælist í að virkja enn frekar mátt hugans og þar stæðu Seyðfirðingar vel að vígi þar sem þeir hefðu löngum verið duglegir við að nota ímyndunaraflið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.