Stofnun deildar FKA tækifæri til að auka samstöku, sýnileika og tengslanet

Stofnfundur Austurlandsdeildar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) verður haldinn í dag. Skipuleggjendur segjast hafa fundið mikla þörf á slíkum samtökum kvenna eftir að undirbúningur stofnunarinnar hófst.

„Markmiðið er að auka samstöðu, sýnileika og efla tengslanetið. Það var greinilega eftirspurn, við höfum fundið það eftir að við fórum af stað en það vantaði að tekið væri af skarið,“ segir Heiða Ingimarsdóttir, ein þeirra sem kemur að stofnun félagsins.

FKA var stofnað sem tengslanet athafnakvenna og kvenleiðtoga af ýmsum stigum. Því er ætlað að gæta hagsmuna, efla samstöðu og samstarf kvenna í atvinnulífinu. Það gerir það með þrýsta á lagabreytingar og venjum í átt til aukins jafnvægis innan atvinnulífsins, fræðslu og viðburðum. Fyrir eru landsbyggðadeildir á Norðurlandi, Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi.

Heiða segir skilgreiningar á hver sé leiðtogi teygjanlegar. „Konur spyrja hvort þetta eigi við um sig. Það er engin sem segir að þessi eða hin sé ekki leiðtogi. Kennari er leiðtogi í bekknum, bóndi er klárlega stjórnandi og hvernig getum við sagt að húsmóðir sé ekki stjórnandi?

Það eru allar velkomnar. Því fleiri sem við erum því sterkari erum við og þannig höfum við áhrif á samfélagsumræðuna og það samfélag sem við viljum búa í,“ segir Heiða.

Stofnfundurinn verður í Vök baths og hefst klukkan 17:00. Hann er einnig aðgengilegur í fjarfundabúnaði. Þar verður kosin stjórn sem mótar áherslur í starfinu framundan. Hluti félagsgjalda í FKA rennur til deildarinnar þannig hægt sé að standa fyrir starfi. Þegar hefur verið ákveðið að haustferð FKA verði farin til Austurlands sem Heiða segir kjörið tækifæri fyrir konur að austan til að hitta stöllur sínar víðar af landinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.