Stöðfirðingar ekki með þolinmæði fyrir fjögurra ára veltingi í viðbót

Íbúar á Stöðvarfirði kalla eftir því að sveitarfélagið Fjarðabyggð taki af skarið með framtíðarstaðsetningu tjaldsvæðis staðarins. Hugmyndir um að gamli íþróttavöllurinn verði tekinn undir tjaldsvæðið hafa verið kynntar fyrir bæjarbúum.

Þetta kemur fram í erindi sem íbúasamtök Stöðvarfjarðar sendu sveitarfélaginu nýverið. Þar er rakið hvernig samtökin hafi kynnt hugmyndir um breytta staðsetningu tjaldsvæðisins bæði á sérstökum íbúafundi sem á íbúaþingi í vor við almennt góðar viðtökur.

Hins vegar hafi verið talsvert deilt á hugmyndirnar á samfélagsmiðlum, að sögn stjórnarinnar aðallega af fólki sem ekki búi á staðnum.

Tjaldsvæðamálið hefur velkst inni hjá Fjarðabyggð í nokkurn tíma, meðal annars verið til umræðu á framboðsfundum þar fyrir síðustu þrennar sveitarstjórnarkosningar. Í vor kom meðal annars fram nokkurt ónæði nágranna af tjaldgestum, sem halda að íbúðarhús sé þjónustuhús fyrir svæðið.

„Þessi umræða er búinn að eiga sér stað núna yfir tvö kjörtímabil, og alltaf á að fara gera eitthvað en það virðist svo stoppa á guð má vita hverju,“ segir í erindi íbúasamtakanna. Þar er óskað eftir skýrri stefnu frá Fjarðabyggð um tjaldsvæðið, hvort þar eigi yfir höfuð að vera tjaldsvæði. Sé það hins vegar niðurstaðan að sveitarfélagið treysti sér ekki til að halda úti tjaldsvæði á Stöðvarfirði hljóti eitt yfir alla að ganga.

Brýnt sé að svör liggi fyrir sem fyrst og aðgerðir í kjölfarið. „Fjarðabyggð. Þetta er ekki eitthvað sem íbúar hafa þolinmæði fyrir í 4 ár í viðbót.“

Á síðasta fundi bæjarráðs var samþykkt að vísa erindinu til mannvirkja- og veitunefndar til umfjöllunar og kostnaðargreiningar.


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.