Stöð fékk hæsta styrkinn úr fornminjasjóði

Uppgröftur á landnámsskála að Stöð í Stöðvarfirði fékk hæsta styrkinn þegar úthlutað var úr fornminjasjóði nýverið. Merkar heimildir eru þar að koma í ljós um þróun húsagerðar í kringum landnám.

Alls var úthlutað tæplega 41,5 milljónum króna, þar af runnu fjórar milljónir til rannsókna að Stöð. Eitt annað austfirskt verkefni hlaut styrk, Hjörleifur Guttormsson fékk 1,1 milljón til fornleifaskráningar jörðum á Útsveit, fyrrum Helgustaðahreppi, við Reyðarfjörð.

Áhugavert byggingarlag

Í viðtali við vikublaðið Austurgluggann í síðasta mánuði sagði Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur og stjórnandi uppgraftarins að Stöð að það sem hefði komið mest á óvart í uppgreftrinum síðasta sumar hefði verið austasti hluti skálans.

„Sá hluti sker sig frá öðrum. Þar fundust meðal annars flestar skífur, snældusnúðar og fiskasteinn sem bendir til þess að rýmið hafi haft svipaða virkni og skemmurnar síðar meir,“ segir Bjarni.

Hann útskýrir að landnámsskálarnir hafi í raun verið stór hús sem voru eitt rými. Þau voru síðan hólfuð niður í einingar eins og eldhús, stofu, búr og skemmu. Það var gert með torfhleðslum sem engin ummerki eru um í dag. Á miðöldum breyttist byggingarstíllinn, þá varð hvert herbergi að sjálfstæðu rými og gangar á milli þeirra.

Bjarni segir að á Stöð séu vísbendingar um að í landnámsskálanum hafi austasta rýmið verið stúkað af. „Þetta svæði sker sig úr hvað byggingarlagið varðar, gólfið var öðruvísi. Þarna kann að vera frækornið að því sem síðar varð húsagerðarlega séð.“

Fleiri hús koma í ljós

Skálarnir sem komnir eru í ljós að Stöð eru tveir, hvor ofan á öðrum. Annar er hinn eiginlegi landnámsskáli, byggður um 870 en hinn er eldri. „Hann er vísbending um landnýtingu frekar en landnám,“ segir Bjarni.

Í sumar voru teknir könnunarskurðir sem leiddu í ljós fleiri byggingar í nágrenninu. „Það er gefið mál að húsin eru fleiri, einkum sem tilheyra yngri skálanum. Við höfum ekki enn orðið vör við vinnuhús, gripahús eða smiðju. Við höfum líka séð mannvirki, miklar gryfjur, sem við vitum ekki til hvers voru notuð.“

Ríkur staður

Fjöldi gripa fannst í sumar, sem fyrri ár, og er staðan nú sú að hvergi hefur fundist meira af verðmætum gripum frá landnámi hérlendis. „Perlur, silfur, gull og blý – þetta var dýrt efni. Stöð er gríðarlega ríkur staður. Við höfum fundið fleiri perlur þar en samanlagt úr tveimur næst ríkustu uppgröftum hérlendis frá yngri járnöld. Auk þess er yngri skálinn með þeim stærstu hérlendis og sá eldri sá stærsti. Við höfum ekki enn staðfest stærð hans en hann er vel yfir 40 metra.“

Búið er að grafa á Stöð síðustu fimm sumur og er undirbúningur í gangi fyrir það sjötta. Heimafólk hefur hrundið af stað söfnun til að tryggja framgang verkefnisins. „Segjum að ég eigi tíu ár eftir. Ég var tólf sumur að Hólmi í Nesjum. Við höfum grafið í júnímánuði, peningamálin þurfa að breytast til að við getum grafið lengur og jafnvel þurfum við að stytta vinnuna um viku,“ segir Bjarni.

Frá uppgreftrinum á Stöð síðasta sumar. Mynd: Bjarni F. Einarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.