Orkumálinn 2024

Stjörnutjaldið verður mikil upplifun fyrir alla

„Fjöldi þeirra sem mætir til okkar fer vaxandi ár frá ári, en um 1500 gestir komu í fyrra,“ segir Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, áfangastjóri Verkmenntaskóla Austurlands, en Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í skólanum næstkomandi laugardag.


Þetta er í sjötta sinn sem Austurbrú og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja Tæknidaginn. Markmiðið er sem fyrr að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í nærumhverfinu og þannig varpa ljósi á fjölbreytt störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu.

„Segja má að gildi Tæknidagsins sé tvíþætt. Annars vegar er þetta mjög góð kynning á skólanum sjálfum, því hvað hann hefur upp á að bjóða og því starfi sem fram fer innan hans. Hins vegar varpar dagurinn ljósi á það sem er að gerast í samfélaginu í kringum okkur, þeim tæknistöfum- og fyrirtækjum sem eru á svæðinu, en mörg þeirra kynna sína starfsemi á þessum degi,“ segir Þorbjörg Ólöf, en fjöldi fyrirtækja á Austurlandi mun sýna ýmis konar tæknilausnir.

Viðburðir í þremur byggingum
Viðburðir verða í þremur byggingum skólans; Í verknámshúsi, bóknámshúsi og í íþróttahúsi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Gestir fá til dæmis að kynnast FabLab Austurlandi sem einmitt var opnað á Tæknidegi fjölskyldunnar árið 2014. Einnig verður hægt að prófa málmsuðu í sýndarveruleika, vinna í vélarrúmshermi og spreyta sig á eldsmíði.

„Við höfum verið með aðdráttarafl fyrir krakka undanfarin ár, en bæði hafa Ævar vísindamaður og Vísinda-Villi heimsótt okkur á þessum degi. Í ár gefst gestum kost á að skoða stjörnur og vetrarbrautir í sérsmíðuðu stjörnutjaldi, sem er mikil upplifun bæði fyrir börn og fullorðna,“ segir Þorbjörg Ólöf.

Þá segir Þorbjörg Ólöf að krufningin veki alltaf mikla athygli, en undanfarin ár hefur Þórður Júlíusson, fyrrverandi kennari við skólann, krufið dýr á Tæknidaginn „Við verðum með krufninguna í íþróttahúsinu í ár, en hún hefur verið í fyrirlestrasal hingað til sem alltaf hefur verið alveg fullur af fólki.“

Ný suðuaðstaða vígð
Á Tæknideginum verður ný suðuaðstaða skólans formlega vígð en unnið hefur verið að henni hörðum höndum síðustu mánuði. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun klippa á borðann ásamt nöfnu sinni, Lilju Guðnýju Jóhannesdóttur, skólameistara VA.

„Með þessu getum við boðið nemendum upp á fullkomna suðuaðstöðu með öllum þeim öryggiskröfum sem gerðar eru. Um byltingu í kennsluaðstöðu er að ræða sem gerir skólanum kleift að taka við fleiri nemendum með skipulögðum hætti og skila af okkur hæfari nemendum út í samfélagið.“

Þorbjörg Ólöf vill hvetja fólk til þess að kynna sér dagskrána vel til þess að missa ekki af neinu, en fyrst og fremst gefa sér góðan tíma til þess að skoða allt. „Alls ekki mæta klukkan þrjú þegar, það getur tekið dágóðan tíma að skoða allt saman – sjá, upplifa, snerta og nýta öll skilningarvitin til þess að fá sem mest út úr heimsókninni,“ en dagskráin stendur frá klukkan 12:00-16:00.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.