Stjórn Síldarvinnslunnar endurkjörin

Stjórn Síldarvinnslunnar var endurkjörin á aðalfundi félagsins sem haldinn var fyrir helgina. Í henni sitja sem aðalmenn: Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir, Guðmundur Rafnkell Gíslason, Ingi Jóhann Guðmundsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Varamenn eru þau Arna Bryndís Baldvins McClure og Halldór Jónasson.

Þetta kemur fram á vefsíðu félagsins. Þar segir ennfremur að á fundinum var samþykkt að greiða ekki arð af afkomu ársins 2020 en hagnaðurinn verði færður til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé.

Síldarvinnslan stefnir á skráningu félagsins á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. hinn 27. maí nk. og í ljósi þess samþykkti aðalfundurinn að boðað yrði til hluthafafundar í félaginu fyrir lok júnímánaðar þar sem meðal annars yrði kjörin ný stjórn.

Fram kom að þegar Síldarvinnslan hefði verið skráð á hlutabréfamarkað yrði það eina félagið úti á landi á þeim markaði. Það má því segja að skráning félagsins á markaðinn feli í sér afgerandi tímamót.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður, greindi frá því að rétt 20 ár væru liðin frá því að hann var fyrst kjörinn í stjórn Síldarvinnslunnar. Síðan sagði hann: „Það eru forréttindi að fá að hafa verið þátttakandi í rekstri fyrirtækis eins og Síldarvinnslunnar í tuttugu ár. Þrátt fyrir að oft hafi blásið á móti, eins og gerist og mun gerast áfram í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, hefur reksturinn gengið vel,“ að því er kemur fram á vefsíðunni.

Þar segir einnig að Þorsteinn vakti sérstaka athygli á því að Síldarvinnslan yrði eina fyrirtækið á landsbyggðinni sem skráð yrði á markaði eftir að skráning hefði farið fram síðar í þessum mánuði. Benti hann á að fyrirtæki í Neskaupstað ætti alls ekki minna erindi við almenning en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þá lagði hann áherslu á að þær hefðir sem skapast hefðu í kringum fyrirtækið í Neskaupstað hefðu ávallt verið virtar og hann treysti því að svo yrði áfram.

Mynd: "Það eru forréttindi að fá að hafa verið þátttakandi í rekstri fyrirtækis eins og Síldarvinnslunnar í tuttugu ár," segir Þorsteinn Már.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.