Steypt upp í útvegg Vjelsmiðjunnar

Að undanförnu hefur verið unnið að því að tryggja húsnæði Vjelsmiðju Jóhanns Hanssonar, miðstöð Tækniminjasafns Austurlands, en hún stórskemmdist í stóru skriðunni sem féll á Seyðisfjörð í desember 2020. Sýningar á vegum safnsins opna seinni part sumar.

„Við gátum nýtt bæturnar sem áttu að fara í niðurrif hússins til að tryggja öryggi hússins og erum að því.

Það er búið að steypa upp nýjan útvegg og laga klósettaðstöðu þar við. Síðan skiptum við um glugga og setjum upp varmadælur því það var kalt þarna inni. Eins verður mokað frá húsinu og það drenað,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands.

Veggjabrot elsta hluta hússins eiga að standa áfram, sem eins konar minnisvarði um sögu þess á ýmsum tímum. „Það er eins og ör. Við ætlum að heiðra þá minningu sem það varðveitir með að hafa það sýnilegt.“

Seinni part sumars stendur til að opna sýningar á vegum safnsins. „Það er kannski í lagi að taka það skýrt fram að safnið er lokað sem stendur og við getum ekki sýnt neitt.

Við erum annars að vinna í að setja upp vörður á nokkrum lykilstöðum í bænum með upplýsingum um aurskriðuna og áhrif hennar frá ýmsum sjónarhornum. Við verðum til dæmis með gögn frá Veðurstofunni og umfjöllun um áhrif skriðufallanna á samfélagið. Síðan verður komið upp útigalleríi með myndum í samvinnu við Stúdíó Ströndin.“

Jónína segir mikinn áhuga á svæðinu sem áður var þungamiðja Tækniminjasafnsins en sýnir í dag mest ummerki skriðunnar. „Við sjáum stöðugan straum upp með Búðaránni og þaðan upp í skriðuna sjálfa. Það gengur líka margt fólk út að Vjelsmiðju, það er bæði forvitið um framkvæmdirnar en líka safnið sjálft.

Við erum þakklát fyrir hve lánsöm við erum með þátttöku samfélagsins og finnum fyrir miklum meðbyr. Lykillinn í stefnumótuninni sem við erum að móta fyrir safnið er að byggja upp eitthvað sem fólkið hér getur verið ánægt með. Safnið er hugsað fyrir heimafólk en síðan er ferðafólkið sem kemur við bónus.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.