Steinar Ingi leiðir Héraðslistann

Steinar Ingi Þorsteinsson, knattspyrnuþjálfari og framkvæmdastjóri og Kristjana Sigurðardóttir, verkefnastjóri, skipa framboðslista Héraðslista, samtaka félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Nokkur endurnýjun er á listanum, sem myndar meirihluta í bæjarstjórn með Á-lista og Sjálfstæðisflokki, en hvorugur núverandi bæjarfulltrúa, hvorki Sigrún Blöndal né Árni Kristinsson, gefa kost á sér áfram í forustu. Sigrún skipar hins vegar fimmta sæti listans.

Um tíma leit út fyrir að listinn byði ekki fram vegna skorts á fólki í forustusætin en hjólin fóru að snúast eftir að stjórn listans setti fram slíka tillögu.

Í tilkynningu segir að listinn bjóði fram undir undir orðunum „Virðing, kraftur, gleði". Áhersla er lögð á áframhaldandi ábyrga fjármálastjórn, að opna stjórnsýslu sveitarfélagsins og einfalda, starfa að heilum hug að samstarfi og sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi, tryggja að Fljótsdalshérað sé eftirsóknarverður búsetukostur m.a. með því að tryggja fjölbreytt og öflugt atvinnulíf, greiðan aðgang að leikskólum, grunnskólum og margvíslegu tómstunda- og íþróttastarfi.

Lögð verður áhersla á umhverfismál og náttúruvernd, þannig verður að gera ýtrustu kröfur til fráveitukerfa sveitarfélagsins og Héraðslistinn stefnir að því sveitarfélagið verði plastpokalaust á kjörtímabilinu.

Sömuleiðis verði unnið að því í samvinnu við önnur sveitarfélög að fjölga sálfræðingum á Skólaskrifstofu Austurlands til að mæta sívaxandi þörf fyrir greiningar og ráðgjöf fyrir börn og unglinga og fækka á biðlistum.

Ljúka verður deiliskipulagi fyrir miðbæjarkjarna sveitarfélagsins sem er í takt við breyttar aðstæður og með áherslu á gangandi og hjólandi vegfarendur. Héraðslistinn mun þrýsta á stjórnvöld um gerð nýrrar Lagarfljótsbrúar, malbikun tengivega í sveitarfélaginu og greiðra vegtenginga við önnur sveitarfélög. Þá verður að skilgreina innanlandsflug sem almennings-samgöngur.

Framboðslistinn í heild:

1. Steinar Ingi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri
2. Kristjana Sigurðardóttir, verkefnastjóri
3. Björg Björnsdóttir, mannauðstjóri
4. Aðalsteinn Ásmundarson vélsmiður
5. Sigrún Blöndal, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi
6. Dagur Skírnir Óðinsson framhaldsskólakennari
7. Gyða Dröfn Hjaltadóttir sálfræðingur
8. Skúli Björnsson framkvæmdastjóri
9. Leifur Þorkelsson heilbrigðisfulltrúi
10. Margrét Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Austurför
11. Garðar Valur Hallfreðarson, tölvunarfræðingur og framkvæmdastjóri
12. Kristín María Björnsdóttir skrifstofumaður
13. Jón Steinar Garðarsson Mýrdal, verkefnastjóri hjá Austurbrú
14. Iryna Boiko, sjálfstætt starfandi naglafræðingur
15. Arngrímur Viðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri
16. Lára Vilbergsdóttir, framkvæmdastjóri og hönnuður
17. Aron Steinn Halldórsson nemi
18. Ragnhildur Rós Indriðadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir

Framboðslisti Samtaka félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði – Héraðslista. Fremsta röð frá vinstri: Björg Björnsdóttir, Steinar Ingi Þorsteinsson, Kristjana Sigurðardóttir og Aðalsteinn Ásmundsson. Miðröð frá vinstri: Gyða Dröfn Hjaltadóttir, Sigrún Blöndal, Leifur Þorkelsson, Dagur Skírnir Óðinsson og Iryna Boiko. Aftasta röð frá vinstri: Aron Steinn Halldórsson, Garðar Valur Hallfreðsson, Jón Steinar Garðarsson Mýrdal, Arngrímur Viðar Ásgeirsson, Margrét Árnadóttir og Skúli Björnsson. Á myndina vantar Kristínu Maríu Björnsdóttur, Láru Vilbergsdóttur og Ragnhildi Rós Indriðadóttur. Ljósmynd: Bylgja Lind Pétursdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar