Orkumálinn 2024

Steina Petra látin

petra_steina.jpgLjósbjörg Petra María Sveinsdóttir, steinasafnari á Stöðvarfirði, lést á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði í gærmorgun.

 

Petra fæddist að Bæjarstöðum við Stöðvarfjörð 24. desember árið 1922, dóttir Sveins Björgólfssonar útvegsbónda og Svanhvítar Láru Sigríðar Pétursdóttur konu hans sem bjuggu á Bæjarstöðum frá 1913 til 1927 en þá fluttu þau inn í Kirkjubóls-þorpið eins og þorpið í Stöðvarfirði hét áður. Þar byggðu þau sér hús sem þau nefndu Árbæ.

Hún Petra giftist Jóni Ingimundarsyni árið 1945 og eignuðust þau fjögur börn; Ingimar, Svein Lárus, Elsu Lísu og Þórkötlu sem öll lifa móður sína. Þau keyptu timburhúsið Sunnuhlíð þar sem safnið er. Sama dag og Jón var jarðaður, aðeins 52 ára að aldri árið 1974, ákvað Petra að opna heimilið fyrir öllum þeim sem vildu skoða steinasafnið. Petra safnaði steinum frá tvítugsaldri en steinasöfnunin hófst af alvöru árið 1946 þegar hún átti loks eigið hús. Langflestir steinanna eru frá nágrenni Stöðvarfjarðar og annars staðar úr fjórðungnum.

Það hefur síðan verið fjölsóttasta safn Austurlands. Petra bjó þar til ársins 2007 þegar hún flutti á hjúkrunarheimilið. Hún fylgdist áfram vel með safninu sem rekið ef af afkomendum hennar.

Petra fékk ýmsar viðurkenningar fyrir starf sitt, fálkaorðuna árið 1995 og hvatningarverðlaun Þróunarfélag Austurlands árið 2006. „Ég fékk viðurkenningu fyrir steinana sem ég á en ekki fyrir sjálfa mig. Það voru steinarnir sem fengu fálkaorðuna,“ sagði hún eftir að hafa tekið við orðunni.

Petra safnaði fleiru, meðal annars, kuðungum, skeljum og vasaklútum. Hún hafði mikinn áhuga á knattspyrnu en Ívar Ingimarsson, sonarsonur hennar, er atvinnumaður í íþróttinni. Þorgrímur Þráinsson skrifaði bók með frásögnum úr litríkri ævi Petru sem kom út fyrir nýliðin jól.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.