Stefna á hefja framkvæmdir við þrjú veiðihús í ár

Útlit er fyrir að framkvæmdir hefjist við byggingu eða stækkun þriggja veiðihúsa í Vopnafirði og Bakkafirði í sumar. Það fjórða bætist við innan tíðar í framkvæmdum upp á fjóra milljarða króna.

Uppbyggingin er á vegum verkefnisins Six Rivers, sem breski auðkýfingurinn Sir Jim Ratcliffe leiðir. Markmið þess er vernd Norður-Atlantshafslaxins með áherslu á sex ár á Norðausturlandi.

Hann hefur fjármagnað verkefnið til þessa en með uppbyggingu veiðihúsanna er vonast til að aðsókn veiðimanna, meðal annar með nýjum veiðihúsum, skjóti fjárhagslegum stoðum undir verkefnið til lengri tíma.

Ný veiðihús verða byggð í landi Ytri-Hlíðar í Vesturárdal, við Hofsá í Vopnafirði og Miðfjarðará í Bakkafirði auk þess sem núverandi veiðihús við Selá í Vopnafirði verður stækkað.

Framkvæmdir hafnar í Vesturárdal

Verkið við Ytri-Hlíð er lengst komið þar sem búið er að samþykkja nýtt skipulag fyrir svæðið. Samið hefur verið við ÍAV. Þ.S. Verktakar á Egilsstöðum eru byrjaðir á vegagerð að svæðinu. Byggingarnar yfir 1000 fermetrar að stærð og er búist við að byggingarnar verði tilbúnar fyrir veiðitímabilið 2022.

Umsókn um 550 fermetra veiðihús við Miðfjarðará hefur verið send Langanesbyggð. Vonast er til að framkvæmdir hefjist í haust og verði lokið sumarið 2023.

Verið er að ganga frá leyfum fyrir 160 fermetra viðbyggingu við 900 fermetra veiðihúsið við Selá. Þar eiga framkvæmdir að hefjast í haust og vera lokið fyrir næsta sumar.

Vinnan við Hofsá er komin styst á leið en málin verða rædd á aðalfundi veiðifélagsins í lok júní. Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers, segir að undirtektir hafi verið jákvæðar en engin ákvörðun liggi fyrir. Þar sé vonast til að húsið verði tilbúið fyrir veiðisumarið 2024. Það verður yfir 1000 fermetrar að stærð þannig alls er um að ræða nýbyggingar upp á um 3000 fermetra.

Six Rivers mun kosta byggingarnar og eiga þær, ekki er ætlast til að veiðifélögin leggi fram fjármagn í framkvæmdirnar. Gísli segir vilja hjá Six Rivers til að veita öðrum aðgengi að veiðihúsunum utan laxveiðitímabilsins og þannig byggja upp frekari ferðaþjónustu eða atvinnustarfsemi á Norðausturlandi.

Veiði hefst í næstu viku

Aðspurður um veiðina í sumar segir hann að enn sé verið að fást við afleiðingar Covid-faraldursins en útlitið sé gott. „Ísland er eftirsótt og það hafa verið miklar fyrirspurnir um veiðileyfi í sumar,“ segir hann.

Opnað verður í Hofsá fimmtudaginn í næstu viku og Selá daginn eftir. Hann segir árnar líta ágætlega út þótt sú kuldatíð sem nú sé eystra hafi slæm áhrif á seiði í uppvexti, nema þeim mun hlýrra verði síðar í sumar. Það komi ekki niður á veiðinni í ár heldur veiðistofnum síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.