Orkumálinn 2024

Starfsmenn bíða í óvissu eftir breytingar hjá HB Granda

Starfsmenn HB Granda á Vopnafirði bíða í óvissu eftir fréttum um frekari áform um rekstur fyrirtækisins á Vopnafirði. Breytingar verða á nýrri bolfiskvinnslu félagsins. Ellefu starfsmönnum var sagt upp í morgun.

„Það er þungt hljóðið í fólki hér. Þetta eru með erfiðustu fundum sem ég hef setið,“ segir Kristján Eggert Guðjónsson, trúnaðarmaður hjá HG Granda á Vopnafirði.

Forsvarsmenn fyrirtækisins boðuðu til starfsmannafundar þar í morgun til að kynna fyrirhugaðar breytingar. Veigamestu breytingarnar eru að bolfiskvinnslan, sem tekin var í gagnið sumarið 2017, verður ekki starfrækt í þeirri mynd sem fyrirhugað var. 

„Við vitum ekki hvaða starfsemi verður í frystihúsinu og bíðum eftir að fá fréttir af því,“ segir Kristján Eggert.

Það þýðir að fækkað er starfsfólki og missa þeir vinnuna sem stystan starfsaldur höfðu. Margir þeirra eru af erlendum uppruna, búsettir á Bakkafirði og fóru til Vopnafjarðar eftir vinnu þegar fiskvinnslu í þeirra heimabæ var hætt.

Í morgun var ellefu starfsmönnum sagt upp störfum. Áður hafði þremur starfsmönnum með tímabundna samninga verið sagt upp auk þess sem ekki er ráðið í stað þriggja starfsmanna sem sögðu upp að eigin frumkvæði. Störfum fækkar þar með um sautján á svo gott sem einu bretti hjá HB Granda á Vopnafirði.

Uppsagnirnar koma eftir uppstokkun á rekstri fyrirtækisins sem fór í hendur nýrra eigenda í sumar. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var nokkrum starfsmönnum í bræðslu á Akranesi sagt upp í gær.

Að undanförnu hefur verið unnin síld hjá HB Granda á Vopnafirði og von er til að vertíðin haldist fram í miðjan nóvember. Hvað tekur þá við er óljóst og ljóst að ástandið getur orðið erfitt ef ekki finnst loðna í janúar.

Bolfiskvinnslunni var komið á til að reyna að tryggja heilsársstarfsemi á staðnum og draga úr sveiflum í starfsemi á milli vertíða í uppsjávarveiðum. Eftir því sem næst verður komist eru ekki fyrirhugaðar breytingar á uppsjávarvinnslu á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.