
Starfsfólkið enn að átta sig á tíðindunum
Formaður AFLs starfsgreinafélags segir starfsfólk bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði vera ráðvillt eftir tíðindi morgunsins um að til standi að hætta starfsemi þar í lok nóvember. Verkalýðsfélagið áformar fund með fólkinu í næstu viku.„Við svona stóra atburði dofnar maður. Þetta er enn eitt kvótaáfallið fyrir okkur Austfirðinga. Þetta er reiðarslag fyrir stað eins og Seyðisfjörð þar sem fjölbreytnin í atvinnulífinu er ekki mikil. Þetta eru um 30 manns sem er stór hluti vinnandi fólks á Seyðisfirði,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.
Tilkynnt var um breytingarnar á starfsmannafundi í hádeginu í dag. Síldarvinnslan segir ástæðurnar vera breyttar ytri aðstæður samhliða því sem kominn sé tími á mikla endurnýjun tækjakostar vinnslunnar sem sé það lítil að hún standi vart undir breytingunum.
„Ég er búin að ræða við trúnaðarmann okkar í vinnslunni. Starfsfólkið virðist hálf ringlað, ekki búið að meðtaka tíðindin,“ segir Hjördís Þóra um tíðindin.
Seyðfirðingar stökkva ekki annað í vinnu
Í tilkynningu Síldarvinnslunnar til fjölmiðla segir að rætt verði við fulltrúa launafólks um leiðir til að milda áhrif lokunarinnar. Þá verði rætt við heimamenn um aðgerðir til að styrkja bæinn til lengri tíma þrátt fyrir brotthvarf vinnslunnar.
„Okkur skilst að einhverjum starfsmönnum hafi verið boðið að færa sig til annað hvort Norðfjarðar eða jafnvel Grindavíkur en við höfum ekki yfirsýn yfir hve margir hafa tök á slíkum ráðstöfunum. Fólk sem býr á Seyðisfirði stekkur ekki endilega í næsta byggðarlag þegar svona gerist.
Að öðru leyti erum við alltaf til í samtal um það sem greitt getur götu þeirra sem lenda í atvinnumissi,“ segir Hjördís Þóra.
Fundað með starfsfólki í næstu viku
Miðað við að þriggja mánaða uppsagnafrestur taki gildi um næstu mánaðamót þá rennur hann út um áramót. Hjördís Þóra kveðst ekki vera komin með yfirsýn yfir uppsagnafrest starfsfólks en einstaklingar yfir sextugu sem unnið hafa í að minnsta kosti tíu ár á staðnum eiga rétt á lengri fresti.
AFL áformar að funda með starfsfólkinu í næstu viku. „Við munum halda fund eftir helgi þegar starfsfólkið hefur betur áttað sig á veruleikanum. Tíðindi sem þessi síast ekki strax inn. Við munum reyna að svara þeim spurningum sem uppi eru. Það er viðbúið að mörgu verði að hyggja.
Það sem við getum fyrst og fremst er að ráðleggja fólki um sína réttindastöðu. Við höfum ekki úr miklu meira að moða. Við erum búin að hafa samband við Vinnumálastofnun sem hefur betri yfirsýn yfir atvinnuumhverfið á Seyðisfirði og hvaða störf séu laus.“