Starfsfólk Loðnuvinnslunnar duglegt að sækja námskeið

Starfsfólki Loðnuvinnslunnar standa til boða ýmis námskeið í gegnum fyrirtækið til að efla færni í vinnu og starfi. Þau hafa verið vel sótt.

„Öll námskeiðin eru valkvæð en hafa verið afar vel sótt. Við reynum að hafa öll námskeið á vinnutíma en stundum er ekki hægt að koma því þannig við ef að kennarinn getur ekki kennt á þeim tíma, auk þess sem öll þessi námskeið eru okkar fólki að kostnaðarlausu,“ segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar í viðtali á vef fyrirtækisins en hún heldur utan um námskeiðin.

Alls starfa um 180 manns hjá Loðnuvinnslunni af 13 þjóðernum. Sum námskeiðin eru sérsniðin fyrir fólk í ákveðnum störfum meðan önnur eru almennari. Þannig var bæði almennt næringarnámskeið en líka námskeið sérstaklega ætlað skipskokkum og matráðum í landi.

Þá hafa meðal annars verið haldin námskeið í skyndihjálp, bókhaldi, starfslokum, íslensku fyrir útlendinga og á lyftara. Á nýju ári er meðal annars á dagskránni námskeið í iðntölvustýringum sem helst í hendur við aukna tæknivæðingu fyrirtækisins.

Þá hefur Loðnuvinnslan komið sér upp ágætri aðstöðu fyrir námskeið og fyrirlestra, svo sem í Tanga, gömlu kaupfélagshúsi sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, móðurfélag Loðnuvinnslunnar, á sem og í Wathnes-sjóhúsi, einni elstu byggingunni í Búðaþorpi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.