Starfsdagur á mánudag í austfirskum skólum

Starfsdagur verður á mánudag í skólum á Fljótsdalshéraði, Djúpavogi, Seyðisfirði, Vopnafirði og í Fjarðabyggð til að undirbúa viðbrögð skólanna við útbreiðslu kórónaveirunnar covid-19.

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun að virkja heimild í sóttvarnalögum um að takmarka tímabundið skólastarf. Grunn- og leikskólar eru á forræði sveitarfélaga og ákveða þau hvernig skólastarfi er háttað, að uppfylltum skilyrðum sem menntamálaráðherra setur.

Sem fyrr segir hefur þegar verið tilkynnt um starfsdag á mánudag í fimm sveitarfélögum á Austurlandi, sem þýðir að skólastarf fellur niður. Dagurinn er ætlaður til að skipuleggja skólastarfið þann tíma sem takmarkanir verða á samkomum, en samkomubannið sem tilkynnt var um í morgun gildir fram á annan dag páska, mánudaginn 13. apríl.

Foreldrar og forráðamenn leik- og grunnskólabarna eru beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum sem birtar verða um helgina og á mánudag á heimasíðum sveitarfélaganna og skólanna.

Uppfært 14.3 með upplýsingum frá Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.