Stafræn kynferðisleg áreitni hluti af veruleika ungs fólks

Sólborg Guðbrandsdóttir sem heldur úti instagram síðunni Fávitar hélt fyrirlestur í Menntaskólanum á Egilsstöðum og félagsmiðstöðinni Nýung á þriðjudaginn. Hún stofnaði instagramsíðuna til að berjast gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Á instagram vill Sólborg berjast gegn kynferðislegri áreitni og birtir til dæmis skjáskot af óumbeðnum kynferðislegum skilaboðum. Með síðunni fylgjast meira en 20.000 mans. „Ég fór af stað með síðuna fyrir þremur árum síðan af því að ég var orðin þreytt á normalíseringunni á kynferðislegri áreitni í samfélaginu. Mig langaði að gera eitthvað til að varpa ljósi á hversu algengt þetta er og að þetta er ekki í lagi. Inná síðunni er ég að ræða margskonar femínisk málefni og berjast á minn hátt gegn stafrænu og annarskonar kynferðisofbeldi. Þetta er góð leið til að ná til sem flestra í dag, að nota samfélagsmiðla og fólk er mikið á instagram,“ segir Sólborg.

Hún segir síðuna svo hafa undið uppá sig og orðið að stærra verkefni. „Smá saman síðustu þrjú ár hefur þetta vaxið í allskonar áttir. Það eru 20.400 mans að fylgjast með instagram síðunni, ég er farin að fara með fyrirlestra í skóla og félagsmiðstöðvar.“ Það gekk vel á Egilstöðum og var góð mæting á fyrirlestra Sólborgar. „Við fylltum fyrirlestrasalinn í menntaskólanum og það komu þónokkuð margir í félagsmiðstöðina. Þetta gekk vel, héraðsbúar tóku vel á móti mér,“ segir hún.

Sólborg telur umræðuna eiga mikið erindi og að stafræn kynferðisleg áreitni sé veruleiki sem ungt fólk býr við í dag. „Að mjög miklum meirihluta upplifir ungt fólk þetta. Þetta er veruleiki, ekki bara íslendinga heldur fólks útum allan heim og það eru börn alveg niður í 12 ára og upp í fullorðið fólk sem er að senda mér skilaboð og segja mér frá ofbeldi og áreitni. Mér finnst roslega mikilvægt að það sé eitthvað rými fyrir fólk að opna sig um svona hluti. Það getur verið dýrt og erfitt að komast að hjá sálfræðingi og margir sem kannski hafa engan sem þeir treysta og þá er hægt að senda mér skilaboð þarna inná í öruggt rými.“

Sólborg segir að kynferðisleg áreitni sé oft ekki litin nógu alvarlegum augum. „Okkur er oft kennt að sópa svonalöguðu undir teppið afþví að svona er þetta bara og svona hefur þetta alltaf verið. Eins og kynferðisleg áreitni sé kannski ekki alveg nógu alvarleg af því að það séu til grófari brot heldur en kynfæramyndir á netinu eða það að einhver klípi þig í rassinn. En málið er að við þurfum líka að heyra þau dæmi, ekki bara allra verstu kynferðisbrotin. Við þurfum ekki að hafa það allra verst til að meiga krefjast þess að hafa það betra,“ segir Sólborg.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.