Stærsti einstaki kolmunnafarmurinn

Færeyska uppsjávarveiðiskipið Gøtunes kom um helgina til Fáskrúðsfjarðar með 3.431 tonn af kolmunna. Aldrei mun jafn miklu hafa verið landað af tegundinni í einum farmi hérlendis.

Gøtunes kom til Fáskrúðsfjarðar á laugardag og var lokið við að landa úr skipinu um miðjan dag í gær. Í raun var landað 5.000 tonnum í einum rykk því Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, var þar strax á undan. Gøtunes er ekki ókunnugt Fáskrúðsfirði því það landaði þar loðnu í hrognatöku í vetur.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir góðan gang í kolmunanveiðum. Skip frá ýmsum löndum eru að veiðum suður af Færeyjum. Hafnir í Færeyjum eru ásetnar og sigla skipin því meðal annars til Noregs og Danmerkur til að landa en önnur hingað, eins og Gøtunes.

Veiðarnar byrjuðu um miðjan apríl og segir Friðrik Mar þær hafa farið ágætlega af stað og fiskurinn þokkalega stór. Það sem af er hefur 12.000 tonnum af kolmunna verið landað á Fáskrúðsfirði.

Hoffell er eitt þeirra skipa sem nú eru að veiða en skipið fór strax út aftur að lokinni löndunum og var byrjað að veiða í gærmorgunn. Í fyrsta hali hífði það inn 560 tonn. „Það er enn ágætis veiði en hún tregast þegar líður á,“ segir Friðrik Mar.

Mynd: Loðnuvinnslan/Jónína G. Óskardóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.