Orkumálinn 2024

Stærsti bólusetningadagurinn eystra í dag

Ríflega 2000 manns hafa fengið boð í bólusetningu við Covid-19 veirunni á Austurlandi í dag. Vonast er til að fyrstu umferð bólusetningar ljúki þar með og um miðjan júlí verði nær allir íbúar svæðisins fullbólusettir.

„Við leggjum upp með að bólusetja marga í dag. Við erum farin að sjá til lands í bólusetningunni,“ segir Jónína Óskarsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Alls hafa 2119 einstaklingar fengið boð um að mæta í bólusetningu annað hvort á Eskifirði eða Egilsstöðum í dag. Nokkuð ljóst þykir þó að ekki munu allir mæta enda í einhverjum tilfellum um að ræða einstaklinga enn skráða á svæðinu þótt þeir séu jafnvel fluttir úr landi.

Bólusett er fyrir hádegi með bóluefni AstraZeneca og Pfizer/BioNTech en verið er að boða fólk til bæði fyrstu og annarrar bólusetningar með þeim efnum. Eftir hádegi verður bólusett með efni Janssen en af því þarf aðeins eina umferð.

Staðan veltur á mætingunni

Í samtali við Austurfrétt kvaðst vonast Jónína eftir góðri mætingu eftir hádegið. Miklu muni ef náist að bólusetja 700 Austfirðinga að fullu með efni Janssen i dag. „Ég er spennt að sjá hvernig staðan verður í lok dags. Við verðum í góðum málum ef fólk mætir almennilega.“

Á Eskifirði verður bólusett til klukkan 17:00 en á Egilsstöðum er búist við að vinnan standi fram undir klukkan 19:00.

Skipulagðri bólusetningu ljúki um miðjan júlí

Eftir þessa viku verður fólk ekki boðað í fyrstu umferð bólusetningar. Í næstu viku verður hins vegar auglýstur opinn tími fyrir þá sem einhverra hluta vegna hafa ekki getað mætt áður. Sá tími verður nánar auglýstur á Facebook-síðu HSA, en nánari upplýsingar um bólusetningarnar má fá með að senda póst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Eftir þessa viku má reikna með að bólusetningu fækki, innan við 1000 skammtar eru væntanlegir í næstu viku. Um miðjan júlí er stefnt að því að skipulagðri bólusetningu verði hætti og hafi þá nær allir íbúar fjórðungsins verið full bólusettir. Áfram verður þó bóluefni til staðar og bólusett eftir því sem þörf er á.

Smituðum heilsast vel

Enn eru tveir einstaklingar í fjórðungnum í einangrun með veiruna. Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarna kemur fram að þeim heilsist vel og verði væntanlega útskrifaðir á næstu dögum.

Í tilkynningunni er brýnt fyrir skipuleggjendum hátíða á næstunni, svo sem á 17. júní, að kynna sér sóttvarnareglur vel og gestir til að rasa ekki um ráð fram í gleðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.