„Stærð er bara hugarástand“

„Sveitarstjórinn fékk þá frábæru hugmynd að við myndum senda landsliðinu smá baráttukveðjur og í leiðinni búa til skemmtilegan viðburð fyrir okkur,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps, en íbúar fjölmenntu í Tankinn síðastliðið miðvikudagskvöld þar sem tekin var upp baráttukveðja frá Djúpavogshreppi til karlalandsliðsins í knattspyrnu.


Um er að ræða gamlan lýsistank sem búið er að útbúa sem tónleika- og viðburðasal, en hljómburður í honum er einstakur. „Það mættu rosa margir, enda geggjað veður. Fólk kom málað í framan og klæddist bláu, bæði í Neista-fötum sem og landsliðsbúningum. Við lékum okkur með dróna og myndavélar og svo var það mitt að koma þessu saman í einhverskonar afurð,“ segir Greta Mjöll um myndbandið, en hún lærði myndvinnslu í meistaranámi sínu í stafrænni fjölmiðlun.

Viðburðurinn í anda Cittaslow-stefnunnar
Greta Mjöll segir að eftir á að hyggja hafi viðburðinn verið í anda Cittaslow-stefnu Djúpavogshrepps. „Þetta snýst kannski fyrst og fremst allt um upplifunina sjálfa þegar upp er staðið, en fyrst og fremst var þetta alveg ótrúlega skemmtilegt kvöld þar sem fólk hittist, gladdist, hló og var bara út að leika sér í góða veðrinu. Svo skemmir það ekkert fyrir ef kveðjan ratar alla leið til strákanna okkar og veitir þeim smá stuðning.“

Þurfum ekki að vera mörg til að vera mögnuð
Greta Mjöll segir leiki Íslands sýnda á nokkrum stöðum á Djúpavogi. „Það er hér eins og annarsstaðar, það eru allir að horfa. Fyrsti leikurinn var meðal annars sýndur á breiðtjaldi á veitingastaðnum Við voginn, en staðurinn var troðfullur af heimamönnum og ferðafólki sem finnst stórkostlegt að fylgjast með okkur fylgjast með okkur!

Hugmyndin okkar var að endurspegla þann anda sem hefur komið landsliðinu þangað sem það er komið. Við þurfum ekkert endilega að vera voðalega mörg til að geta verið mögnuð, en það hefur landsliðið, ásamt öðrum íslensku íþróttafólki, heldur betur sannað fyrir okkur. Við hér á Djúpavogi erum rétt rúmlega 400 en látum það samt ekki stoppa okkur í að láta í okkur heyra og nota það sem við eigum til þess, eins og tankinn. Það er nefnilega svo merkilegt, að þar sem fámennt er þá skiptir hver og einn svo miklu máli“

Greta Mjöll spáir íslenskum sigri
Hvernig telur Greta Mjöll að leikurinn í dag fari? „Ég spáði rétt síðast, 1-1. Ég segi að leikurinn fari 2-1 fyrir okkur og verð bara vonandi sannspá aftur. Við í það minnsta sendum liðinu baráttukveðjur héðan frá Djúpavogi, stærð er bara hugarástand!“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.