SSA: Niðurskurður hjá HSA aðför að austfirskri heilbrigðisþjónustu

ImageStjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) mótmælir harðlega niðurskurðaráformum stjórnvalda, er varða Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) eins og þau koma fram í framlögðu frumvarpi til fjárlaga 2011.

 

Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin sendi frá sér í vikunni. Ofan á miklar sparnaðaraðgerðir HSA undanfarin tvö ár er boðaður 22,1% niðurskurður á heildarframlögum til HSA og 52% niðurskurður á sjúkrasviði stofnunarinnar.

„Áformin eru ekkert annað en aðför að heilbrigðisþjónustunni á starfssvæði HSA, afhjúpar virðingarleysi heilbrigðisyfirvalda til íbúa í fjórðungnum og skerðir velferðarþjónustu á svæðinu.

Ekki liggur fyrir mat á samfélagslegum áhrifum, sem boðaður niðurskurður mun hafa í för með sér á Austurlandi. Vafalaust munu áformin leiða til aukins atvinnuleysis með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð, íbúafækkunar með tilheyrandi tekjutapi fyrir sveitarsjóði og fýsileiki svæðisins til búsetu og atvinnurekstrar minnkar til muna.

Þá er ótalinn sá öryggisþáttur sem skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð er, að ógleymdum auknum kostnaði íbúanna við að sækja þjónustu um lengri veg.“

Heilbrigðisráðherra mælist til þess að sjúkrarúmum verði fækkað um sextán. Það verður væntanlega gert á Egilsstöðum, Seyðisfirði og í Neskaupstað. Þannig gætu sparast 430 milljónir en stofnunin þarf að spara 70-80 milljónir í viðbót.

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands eru nú 330 í 240 stöðugildum. Til stendur að halda fund með þeim um yfirvofandi breytingar. Stofnunin þarf svo að skila tillögum til ráðherra eftir hálfan mánuð.

„Stjórn SSA átelur heilbrigðisráðuneytið fyrir samráðsleysi við ákvörðun um áformaða grundvallarbreytingu á heilbrigðisþjónustu í landshlutanum og skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða boðuð niðurskurðaráform. Jafnframt er heitið á alþingismenn Norðausturkjördæmis að beita sér fyrir að endurskoðun á fjárheimildum til HSA, eins og þau liggja nú fyrir.“

Aðalfundur SSA ályktaði fyrir skemmstu að standa skyldi vörð um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt væri í fjórðungnum sem grunnþátt þjónustu við íbúa, ekki síst á jaðarsvæðum. Framlög til stofnunarinnar þurfi að taka mið af raunverulegri starfsemi hennar og getu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.